Sport

Tíu mánaða sonur íþróttastjörnu drukknaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jannie Du Plessis fagnar titli með franska félaginu Montpellier árið 2016.
Jannie Du Plessis fagnar titli með franska félaginu Montpellier árið 2016. Getty/David Rogers

Suður-afríska ruðningsstjarnan Jannie du Plessis upplifði sannkallaða martröð á afmælisdaginn sinn.

Martröð foreldra er að eitthvað komi fyrir börnin þeirra og erlendir miðlar hafa nú fengið staðfestar hryllilegar fréttir frá Suður-Afríku.

Tíu mánaða sonur Du Plessis drukknaði í sundlauginni við húsið þeirra en atburðurinn gerðist þegar faðirinn var að halda upp á 39 ára afmælið sitt.

„Ég get staðfest það að þessi harmleikur átti sér stað. Við erum öll miður okkar,“ sagði Rudolf Straeuli, framkvæmdastjóri Lions, liðsins sem Jannie du Plessis spilar með. Hann var þá að ræða við suður-afríska miðilinn Sport24.

„Við hugsum til þeirra og við sendum samúðarkveðjur okkar til Jannie og fjölskyldu hans. Þetta er mjög erfiður tími fyrir þau en við munum standa þétt að baki þeim og styðja þau í gegnum þetta,“ sagði Straeuli.

Du Plessis býr í bænum Krugersdorp sem er nálægt Jóhannesarborg. Auk þess að vera ruðningsstjarna þá er hann einnig lærður læknir.

Hann er enn að spila með liði Lions þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall.

Jannie og kona hans Ronel eiga tvö önnur börn en það eru dæturnar Rosalie og Hele.

Jannie du Plessis lék sjötíu landsleiki fyrir Suður-Afríku á árunum 2007 til 2015 en hann varð í heimsmeistaraliði þjóðarinnar árið 2007 ásamt bróður sínum Bismarck du Plessis.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.