Innlent

„Við komumst í gegnum þetta ef við fáum þjóðina með okkur”

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttanefndar Landspítala.
Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttanefndar Landspítala.

Landspítalinn gerir ráð fyrir að þrír á dag muni þurfa á innlögn að halda vegna kórónuveirunnar. Verkefnastjóri farsóttanefndar óttast að spítalinn muni ekki ráða við álagið með þessu áframhaldi og biðlar til fólks að sýna ítrustu varkárni.

Aðgerðum hefur verið frestað og heimsóknarbann sett á Landspítala, eftir að spítalinn var færður yfir á hættustig í gær. Níutíu og sex greindust með kórónuveiruna í gær en þessi bylgja faraldursins er sögð ein sú skæðasta, þó áfram sé lítið um alvarleg veikindi.

„Af því að það eru mörg smit að greinast á dag, og þau hafa verið gríðarlega mörg undanfarið og engin sérstök ástæða til að ætla að það verði eitthvað lát á því næstu dagana, þá þekkjumvið orðið þessar stærðir og vitum að við megum eiga von á um þremur innlögnum á dag. Þá reiðum við okkur á að halda flæðinu gangandi með því að útskrifa jafn mikið á móti,” segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttanefndar Landspítalans.

Hildur segir að staðan sé slík að grípa hefði þurft til harðari aðgerða en gert hafi verið í gær – og ekki bíða með aðgerðirnar fram á miðvikudag, líkt og reglugerðin kveður á um.

„Spítalinn er mjög fullur, bráðamóttakan er full og það eru engin laus legurými.”

Þannig ráði spítalinn varla við ástandið og lítið megi út af bregða.

„Versta mögulega sviðsmyndin, sem maður hefur eiginlega varla þorað að segja upphátt en það er það sem við höfum séð gerast í öðrum löndum þar sem verst hefur látið þar sem ekki er hægt að taka inn fólk og það er á biðstofu eða jafnvel úti á bílastæðum eða heima hjá sér og ekki hægt að sinna því. Þannig að við erum alltaf að reyna að halda okkur við þessa línu að við höfum undan,” segir Hildur.

Stefnir í þetta að einhverju leyti?

„Ég held að við komumst í gegnum þetta ef við fáum þjóðina með okkur í verkefnið, vegna þess að það er svo margt sem fólk getur gert til þess að hjálpa til við að þetta ástand skapist ekki. Og þá er ég ekki bara að meina það sem við erum alltaf að segja; þessar persónubundnu sóttvarnir og að gæta sín og að vera ekki í fjölmenni heldur líka að ef það er hægt að minnka þrýstinginn í samfélaginu. Það er hægt að minnka djammið, hægt að fækka komum á bráðamóttöku vegna líkamsárása, ölvunar, frístundaslysa, bílslysa og alls þess sem er að gerast þegar þjóðfélagið er á fullum blæstri. Ef við gætum einhvern veginn skapað þjóðarsátt um að halda okkur bara svolítið til hlés og minnka alla þessa spennu, og vera bara svolítið meira heima þá vitum við mjög vel að það skiptir alveg rosalega miklu máli.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.