Íslenski boltinn

Segja Aron Jóhanns­son vera á leið til Vals

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Jóhannsson virðist vera á leið heim.
Aron Jóhannsson virðist vera á leið heim. lechpoznan.pl/Przemysław Szyszka

Svo virðist sem framherjinn Aron Jóhannsson muni leika með Val í efstu deild karla í knattspyrnu á komandi leiktíð.

Hinn þrítugi Aron Jóhannsson virðist vera á heimleið eftir atvinnumannaferil í Danmörku, Hollandi, Þýskalandi, Svíþjóð og Póllandi. Heimildir Fréttablaðsins herma að framherjinn knái muni leika með Val næsta sumar.

Aron lék síðast með Lech Poznań í Póllandi en samningi hans þar var rift sökum meiðsla á öxl. Hann er því samningslaus og hefur verið orðaður við fjölda liða hér heima sem og ytra.

Eftir að hafa verið orðaður við Íslandsmeistara Víkings, Breiðablik, FH og Val virðist Aron hafa ákveðið að semja á Hlíðarenda. Hann og Patrick Pedersen munu því berjast um framherjastöðu Valsmanna á næstu leiktíð.

Aron skoraði alls 13 mörk í 37 leikjum fyrir Fjölni ásamt að gera það gott í Danmörku og Hollandi áður en meiðsli fóru að setja strik í reikninginn hjá honum. Hann á einnig að baki 10 leiki fyrir U-21 árs landslið Íslands áður en hann ákvað að söðla um og spila fyrir bandaríska landsliðið, þar spilaði hann 19 leiki og skoraði fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×