Innlent

Hlýtt loft á leiðinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Á morgun má gera ráð fyrir að hlýtt loft komi að suðvesturhorni landsins.
Á morgun má gera ráð fyrir að hlýtt loft komi að suðvesturhorni landsins. Vísir/Vilhelm

Veðrið verður með rólegasta móti víðast hvar um land í dag. Á morgun er hins vegar von á skilum upp að suðvesturhorni landsins með vaxandi suðaustanhátt og hlýju lofti.

Núna í morgunsárið er fremur hæg breytileg átt víðast hvar, skýjað með köflum og lítlsháttar úrkoma.

Er líður á daginn verður norðan 5-10 m/s og léttir til en á Austfjörðum mun norðanstrengur ná á land og útlit fyrir 13-18 m/s þar eftir hádegi.

Síðdegis þykknar svo upp með dálítilli snjókomu norðaustantil. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar í kvöld, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á morgun er síðan von á skilum upp að suðvesturhorni landsins með vaxandi suðaustanátt og rigningu, en þurrt að kalla á Norðausturlandi fram á kvöld. Hlýtt loft fylgir skilunum og annað kvöld verður hiti á bilinu 3 til 9 stig.

Veðurhorfur á landinu

Norðlæg eða breytileg átt 5-10 m/s, skýjað með köflum og lítilsháttar úrkoma, en léttir til um hádegi. Gengur í norðvestan 13-18 austast eftir hádegi. Þykknar upp með dálítilli snjókomu norðaustantil seinnipartinn. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar í kvöld.

Suðlæg átt, 5-13 m/s í fyrramálið. Dálítil rigning sunnan- og vestanlands en bjart með köflum norðaustantil. Vaxandi suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri eftir hádegi, fyrst á Suður- og Vesturlandi. Suðaustan 10-18 annað kvöld. Hiti 1 til 7 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Vaxandi suðaustanátt, 10-15 m/s og rigning sunnan- og vestanlands, síðdegis. Hiti 2 til 7 stig. Hægari vindur og lengst af þurrt norðaustantil á landinu með hita um og undir frostmarki.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur):

Suðaustan 5-13 m/s, rigning með köflum austast, en annars dálítil væta af og til. Hiti 3 til 8 stig.

Á sunnudag:

Breytileg átt og lítilsháttar rigning, en þurrt að kalla norðaustanlands. Gengur í ákveðna norðaustanátt með rigningu eða slyddu norðvestantil seinnipartinn. Hiti 2 til 8 stig.

Á mánudag:

Norðaustankaldi og rigning eða slydda með köflum norðvestantil, en annars hægari breytileg átt og að mestu þurrt. Hiti 1 til 6 stig.

Á þriðjudag:

Líklega ákveðin austlæg átt og rigning. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt og rigningu með kölfum, einkum norðvestantil.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×