Erlent

Hrökk upp við að loftsteinn lenti í rúminu

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldhnöttur sást yfir Kanada nóttina sem loftsteinn fór í gegnum þak Ruth Hamilton og lenti í rúmi hennar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Eldhnöttur sást yfir Kanada nóttina sem loftsteinn fór í gegnum þak Ruth Hamilton og lenti í rúmi hennar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Kanadísk kona slapp með skrekkinn þegar loftsteinn hrapaði í gegnum þakið á húsi hennar og lenti í rúminu við hliðina á henni. Ruth Hamilton vaknaði með látum á heimili hennar í Bresku Kólumbíu fyrr í mánuðinum en hún hélt fyrst að tré hefði fallið á húsið.

Hamilton hringdi í neyðarlínuna eftir að hún sá gatið á þakinu og á meðan hún talaði við starfsmann neyðarlínunnar tók hún eftir svörtum hlut á milli kodda hennar.

Fyrst hélt Hamilton og lögregluþjónn sem mætti til hennar að steinninn hefði borist frá nærliggjandi framkvæmdum en þar á bæ sögðust menn ekkert hafa verið að sprengja. Hins vegar bentu þeir á að sprenging hefði sést á himni yfir svæðinu.

Þá áttuðu þau sig á því að steinninn hefði líklegast fallið af himnum ofan. Það var svo staðfest af vísindamönnum.

Í samtali við Vancouver Sun sagðist Hamilton hafa verið í áfalli. Líkurnar á atviki sem þessu væru gífurlega litlar og hún væri þakklát fyrir að hafa ekki dáið eða slasast.

Steinninn er um 1,2 kíló að þyngd og á stærð við hnefa.

Fjölmargir loftsteinar lenda á jörðinni á degi hverjum. Íbúar Golden, sem er bær í hundraða kílómetra fjarlægð frá heimili Hamilton, vöknuðu við háværar sprengingar sömu nótt og loftsteinninn lendi í rúminu.

Þá sást eldhnöttur á himnum og er talið líklegt að loftsteinninn sem um ræðir hafi komið þaðan.

New York Times segir loftsteina hafa lent á húsum áður og í görðum. Sérfræðingur segir það þó gífurlega ólíklegt. Það séu um það bil einn á móti 100 milljörðum að loftsteinn lendi á húsi og í rúmi einhvers.

Annar loftsteinn sem talinn er vera úr sama stærri grjóti og steinninn sem lenti í rúmi Hamilton fannst á akri skammt frá heimili hennar.

Hamilton segist ætla að eiga loftsteininn.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt CBS um loftsteininn og meðal annars nokkrar myndir úr svefnherbergi Hamilton.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.