Erlent

Rann­saka mögu­legt til­felli Havana-heil­kennisins í Kólumbíu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talið er að tilfelli Havana-heilkennisins hafi komið upp í sendiráði Bandaríkjanna í Bógóta í Kólumbíu.
Talið er að tilfelli Havana-heilkennisins hafi komið upp í sendiráði Bandaríkjanna í Bógóta í Kólumbíu. Google maps/skjáskot

Bandarísk yfirvöld rannsaka nú möguleg tilfelli Havana-heilkennisins í bandaríska sendiráðinu í Kólumbíu aðeins nokkrum dögum áður en utanríkisráðherra Bandaríkjanna á að ferðast þangað. 

Undanfarnar vikur hafa sendiráðsstarfsmenn Bandaríkjanna í Bógóta fundið fyrir einkennum heilkennisins, þar á meðal nístandi sársauka í eyrum, þreytu og svima. 

Fyrstu tilfelli heilkennisins komu upp í bandaríska og kanadíska sendiráðinu á Kúbu árið 2016 en síðan þá hafa bandarískir diplómatar um allan heim fundið fyrir einkennum heilkennisins. Óþekkt er hvað veldur heilkenninu en sumir hafa velt því upp hvort einhvers konar örbylgjuvopn valdi því. 

Wall Street Journal greindi frá því í gær að sendiráðsstarfsmenn í Kólumbíu hafi frá því um miðjan september fundið fyrir einkennum heilkennisins. Í frétt blaðsins er vísað í tölvupósta sem sendir voru af Philip Goldberg, sendiherra Bandaríkjanna í Kólumbíu, þar sem hann skrifar um fjölda „óútskýranlega heilsubresti“ starfsmanna sinna. Í tölvupóstinum skrifar hann að starfsmennirnir hafi fundið fyrir „UHI“, sem samkvæmt frétt Wall Street Journal er hugtak notað af bandarískum diplómötum um Havana-heilkennið. 

Talið er að um 200 hafi fengið Havana-heilkennið, um helmingur þeirra séu starfsmenn CIA, bandarísku leyniþjónustunnar. Flestir hafa lýst keimlíkum einkennum, eyrnaverkjum, þreytu, svima og ógleði og hafa margir hverjir fundið fyrir svima og þreytu svo mánuðum skipti. 

Heilkennið hefur haft áhrif á sendiráðsstarfsmenn Bandaríkjanna víða um heim. Í sumar lýstu sendiráðsstarfsmenn í Vínarborg einkennum heilkennisins, þá er talið að tilfelli þess hafi komið upp í bandaríska sendiráðinu í Berlín fyrir stuttu og hefur lögreglan í Berlín það nú til rannsóknar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×