Erlent

Tískuhúsið Givenchy gagnrýnt fyrir snöruhálsskraut

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hálsskrautið umdeilda.
Hálsskrautið umdeilda. Getty

Franska tískuhúsið Givenchy hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að þrjár fyrirsætur birtust á sýningarpöllum á tískuvikunni í París með hálsmen sem litu út eins og snörur. Aðeins tvö ár eru síðan forsvarsmenn Burberry báðust afsökunar á áþekkum mistökum.

„Maður hefði haldið að iðnaðurinn hefði lært að setja ekki eitthvað um háls fyrirsætanna sem líkist snöru,“ sagði á Instagram reikningnum Diet Prada. „Sagan endurtekur sig.“

Umrædd tískusýning var fyrsta sýning tískuhússins síðan Matthew Williams tók við sem yfirhönnuður merkisins. Williams sagði í samtali við Vogue að línan væri „úthugsuð og margræð“ og meðal annars byggð á listaverkum Josh Smith, sem bera yfirskriftina „Maðurinn með ljáinn“.

Forsvarsmenn Givenchy hafa ekki tjáð sig um gagnrýnina.

Eitt verka úr röð Smith um Manninn með ljáinn og hönnuðurinn Matthew Williamsson.

Fjaðrafokið vegna hettupeysu Burberry, sem var með reimar sem enduðu í snöru, braust út árið 2019 en sama ár innkallaði Gucci peysu úr sölu sem var sögð líkja eftir svokölluðu „blackface“. Rúllukragi svartrar peysunnar náði upp fyrir nef og bjó til þykkar, rauðar varir kringum munninn.

 Prada innkallaði sömuleiðis svarta apa með stórar rauðar varir sem minntu óneitanlega á „blackface“ og þá voru Dolce & Gabbana harðlega gagnrýndir árið 2016 fyrir að kalla skóbúnað „þrælasandala“.

Apar Prada og peysa Gucci.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×