Innlent

Frjósemi íslenskra kvenna 1,71 barn árið 2020

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frjósemi íslenskra kvenna er nú á pari við frjósemi kvenna í Danmörku og Svíþjóð.
Frjósemi íslenskra kvenna er nú á pari við frjósemi kvenna í Danmörku og Svíþjóð. Javier de la Maza

Sögulega séð hefur frjósemi á Íslandi verið meiri en í nágrannalöndunum en nú er svo komið að hún er næstum því sú sama á Íslandi og í Danmörku og Svíþjóð, eða í kringum 1,7 börn á hverja konu. 

Gengið er út frá því að til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma þurfi hver kona að eignast 2,1 barn á lífsleiðinni. Þegar frjósemi var hvað mest á Íslandi, árið 1960, voru konur að eignast um 4,3 börn.

Frá þessu er greint í talnabrunni embættis landlæknis um fæðingar og frjósemi árið 2020.

Þar segir að samkvæmt rannsókn sem gerð var í Finnlandi séu helstu ástæður þess að dregið hefur úr frjósemi hærri meðalaldur frumbyrja og fjölgun meðal þeirra sem ákveða að eignast ekki börn. Leiða megi líkur að því að sömu ástæður eigi við hér á landi.

Margar konur á landsbyggðinni eiga börn sín utan heimabyggðar

Árið 2020 fæddust 4.499 börn á Íslandi í 4.457 fæðingum. Þetta jafngildir 60,9 börnum á hverjar þúsund konur. Heimafæðingar voru heldur fleiri en áður, 118, sem má mögulega rekja til kórónuveirufaraldursins en keisaraskurðir voru 719.

Langflestar fæðingarnar fóru fram á Landspítala, eða 74 prósent, en í tölurnar endurspegla vel mismunandi aðgengi kvenna að fæðingarþjónustu í heimabyggð. 

Þannig fæddi aðeins helmingur kvenna búsettur á Austurlandi börn sín í heimabyggð og meirihluti kvenna á Vestfjörðum (61,3 prósent), Suðurnesjum (70,8 prósent) og Suðurlandi (84 prósent) utan heimabyggðar.

Í talnabrunninum er fjallað um sjúkdóma á meðgöngu og meðal annars greint frá því að samkvæmt gögnum fæðingarskrár hafi 23 prósent barnshafandi kvenna verið með líkamsþyngdarstuðul yfir 30 árið 2020. Vísbendingar séu uppi um að hlutfallið sé að hækka.

Þessu fylgi auknar líkur á ýmsum vandamálum, svo sem auknar líkur á meðgöngusykursýki, háþrýstingi, meðgöngueitrun, blóðtappa, þungbura, vaxtarseinkun í lok meðgöngu og fósturdauða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.