Erlent

Geta A-vítamíndropar læknað laskað lyktarskyn?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Guardian segir frá 29 ára konu sem getur ekki lengur borðað ýmsan mat vegna breytinga á lyktarskyni í kjölfar Covid-19. Breytingarnar hafa einnig gert burstun tanna og sturtuferðir ógeðfelldar vegna lyktarinnar sem fylgir.
Guardian segir frá 29 ára konu sem getur ekki lengur borðað ýmsan mat vegna breytinga á lyktarskyni í kjölfar Covid-19. Breytingarnar hafa einnig gert burstun tanna og sturtuferðir ógeðfelldar vegna lyktarinnar sem fylgir.

A-vítamíndropar gætu hjálpað við að laga horfið eða breytt lyktarskyn vegna sýkingar af völdum SARS-CoV-2. University of East Anglia hefur boðað rannsókn til að kanna þennan möguleika, sem mun taka tólf vikur.

Margir hafa tilkynnt um breytingar á lyktarskyni í kjölfar þess að hafa veikst af Covid-19. Sumir virðast missa lyktarskynið alfarið, á meðan aðrir finna skrýtna og jafnvel ógeðfellda lykt af því sem áður ilmaði vel.

Rannsóknin verður gerð á sjálfboðaliðum. Sumir munu fá A-vítamínúða til að spreyja í nefið en aðrir ekki. Báðir hópar verða síðan beðnir um að lykta af hlutum á borð við rotin egg og rósir. Þá verða teknar myndir af heilastarfseminni til að athuga hvort tekist hefur að lækna „lyktartaugar“ líkamans.

Covid-19 er ekki eini sjúkdómurinn sem veldur brengluðu lyktarskyni heldur getur fólk einnig fundið fyrir breytingum í kjölfar venjulegrar flensu, svo dæmi sé tekið. Flestir endurheimta lyktarskynið aftur en sumir virðast sitja uppi með skaðann.

Carl Philott, sem fer fyrir rannsókninni, segir markmið hennar að komast að því hvort droparnir hafa áhrif á stærð og/eða virkni lyktartauganna. Þá verður svokallaður lyktarklumba (e. olfactory bulb) skoðuðu sérstaklega en þar koma lyktartaugarnar saman og tengjast upp í heila.

A-vítamín er þekkt fyrir að viðhalda heilbrigðu ónæmiskerfi, sjón og húð. Það er hinsvegar ekki vatnsleysanlegt og getur því verið hættulegt í miklu magni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×