Fótbolti

Klæddist treyjunni hans Messi en fann enga pressu: Ævintýraendurkoma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelona fögnuðu marki Ansu Fati með því að lyfta stráknum upp.
Leikmenn Barcelona fögnuðu marki Ansu Fati með því að lyfta stráknum upp. AP/Joan Monfort

Táningurinn Ansu Fati snéri aftur með stæl þegar Barcelona vann lífsnauðsynlegan sigur í spænsku deildinni um helgina.

Ansu Fati var að spila sinn fyrsta leik með Barcelona í tíu mánuði en hann er nú í allt öðrum treyjunúmeri en fyrir meiðslin. Barcelona vann Levante 3-0 og létti pressunni af liðinu eftir mjög slaka byrjun á leiktíðinni.

Nú birti yfir öllu með endurkomu eins efnilegasta leikmannsins í spænska fótboltanum. Hann er líka vonarstjarna og kominn í nýtt númer. Fati fékk nefnilega tíuna hans Lionel Messi þegar besti leikmaðurinn í sögu Barcelona fór til Paris Saint Germain.

„Ég sá ekki fyrir mér svona endurkomu. Þegar við í Barcelona spilum á heimavelli þá verðum við alltaf að vinna. Ég er ánægður með sigurinn en við eigum enn langa leið fyrir höndum,“ sagði Ansu Fati eftir leikinn. Hann reif liðþófa í byrjun nóvember í fyrra.

„Ég vil sýna þakklæti mitt til læknanna og sjúkraþjálfaranna sem hafa verið með mér í öllu þessu ferli. Stuðningsmennirnir eiga líka þakkir skilið enda voru þeir ótrúlegir,“ sagði Fati. Þetta var hans fyrsti leikur í 323 daga.

Fati kom inn á sem varamaður þegar tíu mínútur voru eftir og skoraði þriðja og síðasta mark leiksins í uppbótatíma.

Blaðamennirnir spurðu Fati út í það klæðast tíunni hans Messi.

„Ég fann enga pressu. Það er heiður fyrir mig að klæðast henni næstur á eftir Leo. Ég þakklátur klúbbnum og fyrirliðunum fyrir það að leyfa mér að fá tækifæri til að klæðast tíunni,“ sagði Fati.

„Ég vil ekki sjá þetta sem pressu. Ég bara þakklátur fyrir það að fá að spila í treyju sem hefur gefið þessu félagi svo mikið,“ sagði Fati.

Ansu Fati er enn bara átján ára gamall, fæddur í lok október 2002. Hann kom til Barcelona frá Sevilla þegar hann tíu ára gamall.

Aðeins mánuði fyrir meiðslin hafði Fati verið sá yngsti til að skora í El Clásico eða aðeins 17 ára og 359 daga gamall. Hann var líka sá fyrsti til að skora fleiri en eitt mark í Meistaradeildinni fyrir átján ára afmælið.

Fati hefur skorað eitt mark í fjórum landsleikjum og setti met þegar hann skoraði. Hann er yngsti markaskorari spænska landsliðsins frá upphafi en hann var þá bara 17 ára og 311 daga gamall.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.