Sport

Pacquiao ætlar að bjóða sig fram til forseta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manny Pacquiao ætlar að bjóða sig fram til forseta á næsta ári.
Manny Pacquiao ætlar að bjóða sig fram til forseta á næsta ári. vísir/getty

Hnefaleikakappinn Manny Pacquiao ætlar að bjóða sig fram til forseta á næsta ári í heimalandi sínu, Filippseyjum. 

Hann var útnefndur sem frambjóðandi stjórnarflokksins PDP-Laban, en sitjandi forseti, Rodrigo Duterte, getur ekki boðið sig fram fyrir næsta kjörtímabil.

Pacquiao situr á þingi í Filippseyjum sem öldungadeildarþingmaður.

Pacquiao er 42 ára og á að baki glæstan hnefaleikaferil. Hann er eini boxarinn til að vinna titla í átta mismunandi þyngdarflokkum.

Hann snéri aftur í hringinn í ágúst og tapaði þá óvænt fyrir Kúbverjanum Yordenis Ugas. Eftir bardagann sagðist hann vera að íhuga að leggja hanskana á hilluna.

„Ég er bardagamaður, og ég mun alltaf berjast innan hringsins og utan,“ sagði Pacquiao eftir að hann var útnefndur. Hann segist ætla að berjast gegn fátækt og spillingu.

Pacquiao er vinsæll í heimalandinu, en þó gæti kosningabaráttan reynst honum erfið. Sara Duterte-Carpio, dóttir sitjandi forseta, mælist stöðugt með meira fylgi en þessi 42 ára hnefaleikamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×