Skoðun

Gleymdi mennta- og menningar­mála­ráð­herra Hönnunar­safninu?

Stella Stefánsdóttir skrifar

Í Morgunblaðinu 16. september fór Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningamálaráðherra yfir göfug störf ráðherra í þágu mennta og menningar á kjörtímabilinu og greinilega margir boltar ratað í markið.

Árið 2006 gerði mennta- og menningarmálaráðuneyti samkomulag við Garðabæ um rekstur og stofnframlag ríkisins til Hönnunarsafns Íslands. Í framhaldi af samkomulaginu var Hönnunarsafn Íslands opnað í Garðabæ, en stofnframlag ríkisins til safnsins hefur enn ekki verið greitt. Árið 2016 stillti mennta- og menningarmálaráðuneyti upp samningi um stofnframlag sem ekki var kláraður og er enn óundirritaður. Á þessu kjörtímabili hefur formaður stjórnar Hönnunarsafnsins, formaður menningar- og safnanefndar í Garðabæ og embættismenn ítrekað farið þess á leit við ráðuneytið að ganga frá stofnsamningi við safnið en staðið hefur á svörum ráðuneytis. Þetta er eins og að spila knattleik þar sem mark mótherjans hefur verið fjarlægt þannig að það er ómögulegt gera atlögu að markinu.

Hönnunarsafnið er eitt af viðurkenndum söfnum Íslands. Safnið er sameiginleg minning Íslendinga um íslenska hönnun og endurspeglar hönnunararf þjóðarinnar frá árinu 1900 til nútímans. Það skiptir máli að varðveita, rannsaka og miðla hönnunararfi Íslendinga fyrir komandi kynslóðir, en fjöldi barna og ungmenna heimsækir safnið ár hvert. Hönnunararfur þjóðarinnar veitir framtíðarhönnuðum innblástur og getur ýtt undir hönnun, jafnvel nýsköpun, sem sækir andgift í íslenskan hönnunararf. Mikilvægi hönnunar fer vaxandi og innsýn í hönnun og fjárfestingar í hönnun hafa jákvæð áhrif á umfang nýsköpunar.

Undirrituð skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að ganga frá stofnsamningi Hönnunarsafnins. Ráðherra þarf að setja upp markið á sínum vallarhelmingi þannig að hægt sé gera heiðarlega atlögu að markinu. Það er ómögulegt að spila bara í eina átt og uppskera engin svör.

Höfundur er formaður stjórnar Hönnunarsafns Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.