Skoðun

Enginn skilinn eftir á götunni

Dagmar Valsdóttir skrifar

Kæru landsmenn,

Við sem rekum gistihús í Grindavík vitum betur en flestir hvað náttúruöflin geta haft áhrif á daglegt líf og rekstur. Þegar við þurftum að rýma Grindavík Guesthouse um miðja nótt var stærsta áhyggjuefnið ekki bara eignirnar eða tekjutapið, heldur fólkið sem var í húsinu okkar. Hvert áttu þau að fara? Gæti ég fundið pláss fyrir þau á síðustu stundu? Líkurnar á því voru litlar ,flestir svara ekki síma eftir miðnætti og enginn gerir ráð fyrir að fylla gistihús með svona skömmum fyrirvara.

Þess vegna viljum við stofna nýja grúppu hér á Facebook sem tengir saman okkur gistihúsaeigendur, húsráðendur, og aðra sem búa yfir húsnæði sem mögulega væri hægt að nota tímabundið, hvort sem það er hús sem stendur autt meðan fólk er í fríi eða Airbnb sem ekki tókst að bóka. Þú þarft ekki að vera í ferðaþjónustu til að hjálpa, ef þú getur leigt út pláss í neyð, þá ert þú mikilvægur hlekkur í keðjunni.

Grúppan heitir „Gistiaðstoð Grindavíkur“ og markmiðið er að við eigendur og rekstraraðilar getum fundið skjótan og öruggan bakhjarl þegar við þurfum að færa gesti með skömmum fyrirvara.

Við viljum búa til net þar sem hægt er að:

Finna tímabundið húsnæði fyrir gesti í neyð

Hafa beint samband í gegnum síma eða Messenger

Semja um sanngjarna greiðslu eða þjónustu í staðinn

Minnka streitu þegar óvissan læðist að, sérstaklega ef nýtt gos verður

Við biðjum ykkur – fjölskyldur, vinir, Airbnb-leigusalar og allir sem hafa eitthvað laust pláss, verið svo væn að ganga í grúppuna og láta vita ef þið viljið taka þátt. Þetta er ekki bara hjálp, þetta er fjárfesting í trausti, samstöðu og því sem við Íslendingar höfum alltaf verið þekkt fyrir: „þetta reddast“ hugarfar og að hjálpast að.

Við gerum þetta ekki af því að við búumst við öllu frítt, heldur af því að við viljum búa til kerfi þar sem allir vinna – og enginn er skilinn eftir á götunni.

Takk fyrir að lesa, og takk fyrir að hjálpa.

– Gistihúsaeigendur í Grindavík

Höfundur er eigandi Grindavík Guesthouse.




Skoðun

Sjá meira


×