Skoðun

Van­traust Flokks fólksins á Við­reisn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Færsla strandveiða frá atvinnuvegaráðuneyti Hönnu Katrínar Friðriksson til innviðaráðuneytis Eyjólfs Ármannssonar getur ekki talizt annað en vantraustyfirlýsing Flokks fólksins á Viðreisn og atvinnuvegaráðherra flokksins. Hanna Katrín hefur viljað meina í fjölmiðlum að um eðlilega tilfærslu sé að ræða sem alltaf hafi staðið til en vitanlega vaknar þá spurningin hvers vegna það var ekki gert í tíma áður en núverandi strandveiðitímabil hófst? Sú spurning svarar sér sjálf.

Veruleikinn er sá að ríkisstjórnin með Hönnu Katrínu í broddi fylkingar lagði enga áherzlu á frumvarp hennar um 48 daga strandveiðar. Frumvarpið kom ekki fram fyrr en 28. maí og var síðan látið mæta algerum afgangi af stjórnarflokkunum á Alþingi í sumar. Var þannig sáralítið rætt eins og sést á vef þingsins. Stjórnarflokkarnir höfðu dagskrárvaldið eins og oft hefur verið bent á og hefðu fyrir vikið getað forgangsraðað málinu en kusu hins vegar að gera það ekki.

Tilkynningin um að strandveiðar yrðu fluttar til innviðaráðuneytisins kom á sama tíma og Hanna Katrín greindi frá því að hún hefði ekki fundið leið til þess að tryggja strandveiðisjómönnum auknar aflaheimildir í kjölfar þess að frumvarp hennar dagaði uppi enda ekki fyrir hendi. Það er auðvitað engin tilviljun. Bæri Flokkur fólksins traust til ráðherrans og Viðreisnar í þessum efnum hefði engin þörf verið á því að krefjast þess að hún færi ekki lengur með málaflokkinn.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×