Erlent

Mæta þörfum danska vinnu­markaðarins með fleiri eldri borgurum og há­skóla­stúdentum

Þorgils Jónsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti í morgun umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga fólki á vinnumarkaði.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti í morgun umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga fólki á vinnumarkaði. Getty

Stjórnvöld í Danmörku vonast til þess að fjölga fólki á vinnumarkaði um rúm tíu þúsund á næstu níu árum. Mette Fredriksen forsætisráðherra og Nicolai Wammen fjármálaráðherra kynntu aðgerðapakka þar að lútandi í morgun, undir yfirskriftinni „Danmörk getur gert meira 1“.

Fredriksen sagði að þessar ráðstafanir væru afar mikilvægar til að mæta bráðri vinnuaflsþörf atvinnulífsins og til að standa undir fjármögnun velferðarkerfisins.

Vinna þurfi ekki að vera ánægjuleg

„Þessi áætlun er fjárhagslega ábyrg og samfélagslega réttlát,“ hefur Politiken eftir henni. „Við verðum að útrýma þeirri lífseigu bábilju að vinna eigi að vera sérstaklega ánægjuleg.“

„Við sjáum ákveðið viðhorf læðast inn í samfélagið um að það sé í góðu lagi fyrir suma hópa að stunda ekki vinnu. Við verðum að losna við það. […] Allir ættu að fara á fætur á morgnana og halda til vinnu. Þau sem ekki eru fær um slíkt munu svo fá viðeigandi aðstoð.“

Skorið niður við nýútskrifaða og fjárfestingaátak

Meðal helstu aðgerða má nefna að framfærslustyrkur til nýútskrifaðra háskólanema án atvinnu lækkar, og frítekjumark ellilífeyrisþega og námsstyrksþega verður hækkað. Þá verður ráðist í opinberar fjárfestingar fyrir 4,5 milljarða danskra króna, hátt í 100 milljarða íslenskra króna, í verkefni tengd menntun og umhverfismálum.

Áætlunin er háð samþykki þingsins, en fyrstu viðbrögð samstarfsflokka Jafnaðarmannaflokks Fredriksens, Sósíalíska þjóðarflokksins og Einingarlistans gefa til kynna að nokkuð sé þar óuppgert. Sérstaklega eru þau efins um hvort lækkun framlags til nýútskrifaðra háskólanema skili sér í aukinni atvinnuþátttöku, en meiri ánægja er þar á bæ með aðra þætti áætlunarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×