Innlent

Þróunin bendir til að há­mark verði minna en bæði 2015 og 2018

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurstofan segir áfram vera reiknað með að hlaupið komi til með að ná hámarki við þjóðveg 1 á morgun.
Veðurstofan segir áfram vera reiknað með að hlaupið komi til með að ná hámarki við þjóðveg 1 á morgun. Vísir/RAX

Rennsli við Eldvatn í Skaftá hefur aukist jafnt og þétt frá því í gærkvöldi og mælist nú rúmlega 520 rúmmetrar á sekúndu. Þróun hlaupsins í nótt bendir til að hámarksrennsli hlaupsins verði nú minna en bæði í hlaupunum 2015 og 2018.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að vatnshæðamælir við Sveinstind sýni nú um 1.400 rúmmetrar á sekúndu þegar tekið sé tillit til þess að talsvert af hlaupvatni sé farið að flæða framhjá mælinum líkt og í fyrri hlaupum.

„Mikið hefur hægt á vextinum frá því kl. 23 í gær. Þróun hlaupsins í nótt bendir til þess að hámarksrennsli hlaupsins nú verði minna en bæði 2015 og 2018. Hámarksrennsli hlaupsins 2018 var rúmir 2.000m3/sek.“

Nær hámarki við þjóðveginn á morgun

Veðurstofan segir áfram vera reiknað með að hlaupið komi til með að ná hámarki við þjóðveg 1 á morgun.

„Gera má ráð fyrir því að útbreiðsla hlaupsins komi til með að vaxa í byggð í sólarhring eða meira, eftir að hámarkrennsli er náð við Eldvatn. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunar gefa til kynna að vatnsmagn hlaupsins úr eystri katlinum verði meira en 2018, því geta áhrif hlaupsins í byggð orðið svipuð og 2018, þrátt fyrir að hámarksrennsli nú verði mögulega minna. Við þetta bætist að hlaupið úr vestari katlinum og úrkoma að undanförnu gerir það að verkum að flóðasvæðið er mettað af vatni sem mun líklega auka útbreiðslu hlaupsins.

Hlaupið óx nokkuð hratt í fyrstu og var vöxturinn við Sveinstind fyrstu 12 tímana mun hraðari en áður hefur sést. Þessi hraði vöxtur í gær gaf tilefni til þess að hafa áhyggjur af því hversu stórt hlaupið yrði. Líklegasta skýringin á hröðum vexti er sú að hlaupið úr eystri katlinum kemur í kjölfar hlaups úr þeim vestari. Vatnið á því greiðari leið undir jöklinum. Við þetta bætist að hlaupið ýtir vatni sem fyrir er í farveginum úr vestari katlinum á undan sér,“ segir á vef Veðurstofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×