Íslenski boltinn

„Algjörlega galið að þetta sé leyfilegt í sumardeild á Íslandi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í viðtalinu eftir leikinn.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í viðtalinu eftir leikinn. Skjámynd/S2 Sport

KFS er í botnbaráttunni í 3. deild karla sem er fjórða hæsta deildin á Íslandi en tókst samt að komast í sextán liða úrslit bikarkeppninnar og mun lengra en stóri bróðir í Vestmannaeyjum. Þjálfari liðsins er ÍBV goðsögn.

Mjólkurbikarmörkin fjölluðu um KFS liðið í þætti sínum í gær, sýndu mörkin og Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari KFS, var einnig tekinn í viðtal eftir að hans menn töpuðu 7-1 á móti HK í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

„Mínir menn voru ekki alveg klárir í þennan hraða sem er í Pepsi Max deildinni miðað við 3. deildina. Þeir héldu samt áfram og þeir börðust. Ég sagði við þá: Það skiptir ekki máli hver staðan er, njótið þess að vera hérna. Þetta eru frábærar aðstæður hérna,“ sagði Gunnar Heiðar í viðtali við Andra Má Eggertsson en skipti þá óvænt um gír.

„Þó að við séum að spila innanhúss um mitt sumar sem er gjörsamlega galið. Það er algjörlega galið að þetta sé leyfilegt í sumardeild á Íslandi en það er annað mál,“ sagði Gunnar Heiðar.

Andri Már spurði þá hvort Sæbjörn Sævar Jóhannsson hafi komið of seint inn á í þessum leik en hann fékk að fara inn á völlinn á 76. mínútu.

„Nei, hann hefði ekki getað spilað lengur get ég sagt þér. Þegar menn eru búnir að taka fjögurra daga „bender“ á Þjóðhátíð eins og sjötíu prósent af liðinu þá geta þeir ekki spilað meira en í korter,“ sagði Gunnar Heiðar léttur.

Strákarnir í Mjólkurbikarmörkunum, Henry Birgir Gunnarsson og Þorkell Máni Pétursson, ræddu líka aðeins viðtalið við Gunnar Heiðar. Það má sjá viðtalið og viðbrögðin í settinu hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtalið við Gunnar HeiðarFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.