Innlent

Mál­efni Mennta­mál­stofnunnar til skoðunar og litin al­var­legum augum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Arnór Guðmundsson er forstjóri Menntamálastofnunar.
Arnór Guðmundsson er forstjóri Menntamálastofnunar. vilhelm gunnarsson

Málefni Menntastofnunar eru til skoðunar í menntamálaráðuneytinu og er staðan litin mjög alvarlegum augum. Minnihluti starfsmanna Menntamálastofnunar ber traust til forstjórans og þrettán prósent starfsmanna hafa orðið fyrir einelti á vinnustað. Starfsmenn lýsa stjórnunarvanda á vinnustaðnum og segjast vinna undir ógnarstjórnun og hótunum um brottrekstur.

Þessu greindi Fréttablaðið frá í morgun. Samkvæmt könnun mennta- og menningarmálaráðuneytisins segjast þrettán prósent starfsmanna hafa orðið fyrir einelti í starfi og tuttugu og fimm prósent orðið vitni að einelti á vinnustað.

Í sömu könnun kemur fram að 61 prósent starfsmanna beri ekki traust til forstjóra stofnunarinnar, Arnórs Guðmundssonar og að 60 prósent beri ekki traust til yfirstjórnar stofnunarinnar. 98 prósent starfsmanna svöruðu könnuninni.

Þá hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að þrír starfsmenn hafi sagt upp vegna þess sem þeir lýsa stjórnunarvanda, hentileikastefnu og eineltistilburðum forstjórans. Einn starfsmaður segir starfsmenn vinna undir ógnarstjórnun og hótunum um brottrekstur. Í viðhorfskönnun segjast sumir starfsmenn að þeir séu hræddir um störf sín og þori ekki að tjá skoðanir sinar.

Arnór endurráðinn í fyrra

Ekki náðist í Arnór Guðmundsson, forstjórann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en uppsöfnuð óánægja meðal starfsmanna beinist einna helst að honum. Starf forstjóra var auglýst fyrir ári síðan. Þrír sóttu um og var Arnór endurráðinn.

Samkvæmt skriflegu svari frá Menntamálaráðuneytinu til fréttastofu eru málefni Menntamálastofnunnar til skoðunar í ráðuneytinu og litin mjög alvarlegum augum. Unnið er að úrbótum á stöðunni, meðal annars á grundvelli skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi stofnunarinnar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×