Sport

Fámennasta þjóðin sem vinnur verðlaun á Ólympíuleikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alessandra Perilli felldi gleðitár á verðlaunapallinum.
Alessandra Perilli felldi gleðitár á verðlaunapallinum. getty/Kevin C. Cox

Alessandra Perilli skráði sig og þjóð sína, San Marinó, í sögubækur Ólympíuleikanna þegar hún vann til bronsverðlauna í skotfimi kvenna. Zuzana Rehák-Stefeceková frá Slóvakíu hreppti gullið á nýju Ólympíumeti og hin bandaríska Kayle Browning varð önnur.

Þetta eru fyrstu verðlaun San Marinó á Ólympíuleikum en landið er það fámennasta sem hefur unnið Ólympíuverðlaun í sögunni.

Rúmlega 33 þúsund manns búa í smáríkinu San Marinó. Þrátt fyrir það á það fimm keppendur á Ólympíuleikunum. Tvo í skotfimi, einn í sundi, einn í glímu og einn í júdó.

Perilli er á sínum öðrum Ólympíuleikum en hún keppti einnig í Ríó 2016. Þá komst hún ekki í úrslit. Perilli á enn eftir að keppa í tvenndarleik í skotfimi í Tókýó ásamt Gian Marco Berti.

Auk þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum á Perilli bronsmedalíur frá HM og EM í safni sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×