Sport

„Ég stend fyrir 82 milljónir flóttamanna og allar konur í Afghanistan“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Masomah Ali Zada í keppni dagsins.
Masomah Ali Zada í keppni dagsins. Tim de Waele/Getty Images

Afganska hjólreiðakonan Masomah Ali Zada er á meðal 25 manns sem keppir fyrir lið flóttafólks á Ólympíuleikunum í Tókýó. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir hana persónulega, heldur einnig fyrir þúsundir kvenna um heim allan sem mega ekki einu sinni ferðast um á reiðhjóli.

Ali Zada var á meðal keppenda í götuhjólreiðum á leikunum í dag en það var í fyrsta skipti sem hún tekur þátt í tímatöku á hjólinu. Þrátt fyrir að hafa endað í síðasta sæti segir hún þáttöku sína snúast um mikið meira en það.

Á meðan hún bjó í Afganistan var hún grýtt með steinum og ávöxtum fyrir það eitt að hjóla um. Aukning hefur verið í árásum á konur, sérstaklega konur með hverskyns völd, í landinu af hendi Talibana síðustu misseri.

„Það er mikil ábyrgð sett á herðar mér þar sem ég stend fyrir 82 milljónir flóttamanna og allar konur í Afghanistan og önnur lönd þar sem ekki þykir við hæfi að konur stundi hjólreiðar,“ segir Masomah.

Hún flúði Afganistan ásamt fjölskyldu sinni 2016 og hlaut hæli í Frakklandi. Hún hlaut Ólympískan skólastyrk fyrir flóttafólk sem stundar íþróttir og í maí fékk hún sæti í liði flóttafólks á leikunum í Tókýó.

„Ég er mjög stolt af því að keppa fyrir hönd liðs flóttafólks og senda með því skilaboð um von og frið.“ segir Masomah Ali Zada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×