Sport

Biles dró sig úr leik í liðakeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles hrasaði í lendingu eftir stökk á hesti.
Simone Biles hrasaði í lendingu eftir stökk á hesti. getty/Jamie Squire

Simone Biles hefur lokið í leik í liðakeppni í fimleikum á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Biles tók þátt í fyrstu greininni, stökki, en hrasaði í lendingunni. Hún fór í kjölfarið til búningsherbergja með þjálfara sínum.

Jordan Chiles keppti fyrir Biles í næstu grein, á tvíslá, og NBC greinir frá því að Biles taki ekki frekari þátt í liðakeppninni. Það ku ekki vera vegna meiðsla heldur vegna andlegs álags. Ekki liggur enn fyrir hvort Biles muni taka þátt í einstaklingskeppninni.

Biles fékk aðeins 13.766 í einkunn fyrir stökkæfingar sínar sem er óvenjulega lágt hjá henni.

Biles átti ekki sinn besta dag í undankeppninni en komst samt í úrslit í fimm greinum og fékk flest stig allra.

Hin 24 ára Biles vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 og er almennt talin fremsta fimleikakona allra tíma.

Bandaríkin unnu liðakeppnina í fimleikum kvenna á Ólympíuleikunum 2012 og 2016 en ljóst er að brotthvarf Biles er vatn á myllu annarra liða í keppninni í ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.