Erlent

Lög­reglan í Túnis ræðst inn á skrif­stofur Al Jazeera

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Götur Túnis fylltust af fólki eftir að þing var rofið í gær.
Götur Túnis fylltust af fólki eftir að þing var rofið í gær. Getty/Khaled Nasraoui

Lögreglan í Túnis réðist inn á skrifstofur fréttastofu Al Jazeera í höfuðborginni Túnis í morgun eftir að forseti landsins rak forsætisráðherrann og rauf þing í gær. Allir starfsmenn fréttastofunnar voru reknir út af skrifstofunum.

Minnst 20 þungvopnaðir lögreglumenn réðust inn á skrifstofur fréttastofunnar í morgun að sögn fréttamanna Al Jazeera. Þeir segja lögreglumennina ekki hafa verið klædda í lögreglubúninga og að þeir hafi ekki haft leitarheimild með í för.

„Við fengum enga viðvörun áður en við vorum rekin út af skrifstofum okkar af öryggissveitum,“ segir Lotfi Hajji, fréttastjóri Al Jazeera í Túnis, í frétt Al Jazeera um málið.

Al Jazeera er ein stærsta arabíska fréttaveitan í heiminum og hefur útibú víða um heim, sérstaklega í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

Hajji segir lögreglumennina hafa borið fyrir sig skipun frá dómsmálaráðuneyti landsins og báðu fréttamenn um að yfirgefa svæðið. Fréttamenn segja að lögreglumenn hafi skipað þeim að slökkva á farsímum sínum og að þeir hafi ekki getað snúið aftur á skrifstofurnar til að sækja persónulega muni.

Lögreglan er sögð hafa lagt hald á ýmsan búnað á skrifstofunum.

Eins og áður segir rak Kais Saied, forseti Túnis, forsætisráðherra landsins og rauf þing í gær en hann hyggst taka yfir stjórn landsins með aðstoð nýs forsætisráðherra. Stjórnarflokkurinn og þingforseti lýsa aðgerðunum sem valdaráni.

Aðgerðir forsetans eru sagðar nýjasti vendipunkturinn í ört versnandi stjórnmálakreppu og ljóst að nú mun reyna verulega á stjórnarskrá landsins sem tók gildi eftir lýðræðisbyltinguna árið 2014.

Í kjölfar fregnanna fylltust götur höfuðborgarinnar af fólki sem sýndu stuðning sinn í verki með fagnaðarlátum og bílflautum. Í frétt Reuters er stemningin sögð minna á þá sem ríkti í byltingunni árið 2011 en sú kveikti neista mótmælabylgju í Mið-Austurlöndum sem kennd er við Arabíska vorið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.