Erlent

Ný rannsókn segir stafræn samskipti verri en engin samskipti

Árni Sæberg skrifar
Betra væri að þetta fólk gæti hist í raunheimum.
Betra væri að þetta fólk gæti hist í raunheimum. Pollyana Ventura/Getty

Samskipti við ættingja og vini í gegnum fjarfundabúnað ollu því að margt eldra fólk fann fyrir auknum einmanaleika. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á andlegri heilsu fólks í heimfaraldrinum í Bretlandi og Bandaríkjunum. 

The Guardian greindi frá rannsókninni í morgun. 

Margt eldra fólk hélt sambandi við ættingja og vini í gegnum fjarfundabúnað þegar samkomutakmarkanir komu í veg fyrir samskipti í raunheimum til þess að forðast félagslega einangrun.

Rannsóknin, sem er ein sú fyrsta sem metur áhrif samskipta milli heimila á andlega heilsu í heimsfaraldri Covid-19, bendir hins vegar til að margir eldri en 60 ára hafi fundið fyrir meiri einsemd og langtíma geðraskana vegna stafrænna samskipta.

„Við vorum hissa að sjá að eldri manneskja sem átti einungis stafræn samskipti í samkomubanninu fann fyrir meiri einmanaleika og langtíma geðröskunum en eldri manneskja sem átti ekki nein samskipti yfir höfuð,“ segir Dr. Yang Hu, meðhöfundur skýrslunnar sem birtist í Frontiers in Sociology á mánudag.

„Við bjuggumst við að stafræn samskipti væru betri en algjör einangrun en það virðist ekki vera raunin þegar kemur að eldra fólki,“ bætir hann við.

Hu segir að rót vandans sé að eldra fólki finnist stressandi að læra á nýja tækni sem þarf til að eiga fjarsamskipti. Hann segir þó að jafnvel þeim sem vanir séu tækninni finnist of mikil notkun hennar vera stressvaldur. Þá segir hann að mikil notkun fjarfundabúnaðar geti orsakað kulnun. 

Rannsóknin greindi gögn frá rúmlega 6500 manns yfir sextugu. Mikið samræmi var í niðurstöðunum yfir allan hópinn.

Vísindamennirnir sem framkvæmdu rannsóknina segja hana benda til þess að nauðsynlegt sé að undirbúa eldra fólk fyrir aukin stafræn samskipti áður en önnur eins staða kemur upp líkt og í faraldrinum. 

Þá segja þeir að nauðsynlegt sé að finna leiðir til að viðhalda samskiptum í raunheimum þrátt fyrir neyðarástand.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×