Níutíu og fimm greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær og hafa ekki fleiri greinst með veiruna á einum degi á þessu ári. Stærstur hluti smitaðra var utan sóttkvíar eða 75. Þá eru fjórir á sjúkrahúsi vegna Covid-19. 463 eru nú í einangrun með virkt kórónuveirusmit og 1.266 í sóttkví.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir þessa fjölgun smitaðra mikið áhyggjuefni.
„Jú, það er það og það er greinilegt að útbreiðsla veirunnar er orðin mjög mikil í samfélaginu. Við sjáum það í öllum landshlutum í raun og veru,“ segir Þórólfur.
„Það er vissulega ánægjulegt að það skuli ekki vera meiri veikindi á Covid-göngudeildinni en raun ber vitni. Það eru reyndar fjórir sem liggja núna inni á L andspítalanum með Covid og nokkuð margir í nánu eftirliti en ég vona að bólusetningin haldi.“

Samkomutakmarkanir á ný eftir stutt hlé
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær nýjar sóttvarnaaðgerðir í ljósi stöðu faraldursins hér á landi. Aðeins tæpur mánuður er síðan öllum innanlandsaðgerðum var aflétt en það var í fyrsta sinn síðan 16. mars 2020 sem engar takmarkanir voru í gildi.
Nýjar aðgerðir taka gildi á miðnætti í kvöld og munu gilda í þrjár vikur, til miðnættis 13. ágúst næstkomandi. Á þeim tíma verður 200 manna samkomutakmark, eins metra fjarlægðarregla og grímuskylda innanhúss þar sem ekki er hægt að viðhalda fjarlægðarmörkum.

Veitingastöðum, skemmtistöðum og krám verður lokað klukkan ellefu á kvöldin og þurfa allir gestir að hafa yfirgefið staðinn fyrir miðnætti. Þá þarf að þjóna öllum gestum til borðs.
Líkamsræktarstöðvar og sundstaðir verða áfram opnir og mega taka á móti 75 prósentum leyfilegs hámarksfjölda. Þá eru íþróttaæfingar- og keppnir barna og fullorðinna heimilaðar með og án snertingar en með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda í rými er 200 manns.
Vonar að bólusetningin komi í veg fyrir alvarleg veikindi
Þórólfur segir mesta áhyggjuefnið vera að smit rati inn á stofnanir.
„Það sem er áhyggjuefni er að veikindi fari að koma inn í starfsmenn til dæmis á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og á öðrum stöðum sem geta sett bæði starfsemi þessara stofnana í uppnám og kannski leitt til einhverra smita inni á þessum stofnunum, það er eitt af því sem maður óttast einna mest,“ segir Þórólfur.
„Við erum því miður að sjá smit frá fólki sem fer mjög víða og kemur víða við og hittir marga. Þetta er bara sama gamla sagan í raun og veru en auðvitað vonumst við til að bólusetningin komi í veg fyrir alvarleg veikindi.“