Erlent

Alvarlegt ástand í Afríku: „Sökin er alfarið ríku landanna“

Samúel Karl Ólason skrifar
Smituðum hjálpað við sjúkrahús í Suður-Afríku.
Smituðum hjálpað við sjúkrahús í Suður-Afríku. AP/Nardus Engelbrecht

Ástandið vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar versnar sífellt í Afríku en í síðustu viku fjölgaði dauðsföllum um 43 prósent í heimsálfunni. Heilbrigðiskerfi margra ríkja eru að þrotum komin en ekkert útlit er fyrir að lát verði þar á.

Tilfellum hefur farið hratt fjölgandi í Afríku og þann 13. júlí fór heildarfjöldi þeirra sem hafa smitast, svo vitað sé, yfir sex milljónir.

Í upphafi faraldursins óttuðust sérfræðingar að nýja kórónuveiran myndi leika heimsálfuna grátt. Heilbrigðiskerfi ríkustu Afríkuríkja hefðu ekki burði til að takast á við umfangsmikinn faraldur og skima fyrir veirunni.

Það rættist þó ekki og vissu vísindamenn í raun ekki af hverju. Nú er Delta-afbrigðið að dreifast um Afríku eins og eldur í sinu.

Sjá einnig: Dómsdagsspár vegna Afríku og Covid-19 rættust ekki

Ríkari þjóðir heimsins hafa keypt upp gífurlega stóran hluta bóluefnabirgða og hafa Afríkuríki þurft að reiða sig á Covax-verkefni Sameinuðu þjóðanna. Lítið af bóluefnum hefur þó borist eftir að ríkisstjórn Indlands takmarkaði útflutning á bóluefnum vegna umfangsmikils faraldurs þar í landi.

Forsvarsmenn Afríkubandalagsins hafa sett sér það markmið að bólusetja tuttugu prósent íbúa heimsálfunnar fyrir lok þessa árs. Það gæti þó reynst erfitt miðað við núverandi stöðu, samkvæmt frétt New York Times.

Einungis eitt og hálft prósent Afríkubúa, sem eru um 1,3 milljarður, eru fullbólusettir. 2,97 prósent Afríkubúa hafa fengið minnst einn skammt, samanborið við 26 prósent í Asíu, 37,1 prósent í Suður-Ameríku, 44,8 prósent í Norður-Ameríku og 45,3 prósent í Evrópu.

Á heimsvísu hafa 25,9 prósent manna fengið minnst einn skammt af bóluefni, samkvæmt upplýsingum frá Our World in Data.

Dr. Matshidiso Moeti stýrir starfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Afríku. Hún sagði á blaðamannafundi í gær (fimmtudag) að staðan í Afríku væri alvarleg.

Búist er við því að lyfjaframleiðendur muni framleiða um 10,9 milljarða bóluefnaskammta á þessu ári. Af þeim er þegar búið að selja 9,9 milljarða. Fari allt eftir jákvæðustu vonum forsvarsmanna Covax verða um 200 milljónum skammta dreift um Afríku fyrir lok október. Það myndi duga til að fullbólusetja um sjö prósent íbúa.

Áætlað, samkvæmt New York Times, að fyrir lok ágúst muni ríkustu þjóðir heims sitja á 1,9 milljörðum skammta, umfram þá sem þarf til að fullbólusetja íbúa viðkomandi ríkja.

„Sökin er alfarið ríku landanna,“ er haft eftir Dr. Githinji Gitahi, sem er í viðbragðsnefnd Afríkubandalagsins við Covid-19, í frétt NYT.

WHO í Afríku segir sjúkrahús vera í basli með súrefnisbirgðir og gjörgæslurými.

Þar sem engin eru bóluefninu þurfa yfirvöld í Afríku að reiða á annarskonar sóttvarnir eins og samkomutakmarkanir og lokanir.

Reuters segir faraldurinn í Afríku hafa komið töluvert niður á bágstöddum hagkerfum álfunnar. Í Nígeríu hafi verð á matvælum hækkað töluvert á undanförnum mánuðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.