Bíó og sjónvarp

Kann betur við Cannes í Co­vid

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hilmir Snær Guðnason, Valdimar Jóhannsson, Noomir Rapace og Björn Hlynur Haraldsson á rauða dreglinum í Cannes áður en Dýrið var frumsýnt í gær.
Hilmir Snær Guðnason, Valdimar Jóhannsson, Noomir Rapace og Björn Hlynur Haraldsson á rauða dreglinum í Cannes áður en Dýrið var frumsýnt í gær. Getty/Daniele Venturelli

Leikarinn Björn Hlynur Haraldsson er staddur á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi þessa dagana en kvikmyndin Lamb, eða Dýrið, sem Björn Hlynur fer með hlutverk í var frumsýnd á hátíðinni.

Hátíðin, eins og margar kvikmyndahátíðir þessa dagana, er haldin með breyttu sniði vegna kórónuveirufaraldursins og færri fengið boð á hátíðina. Björn segir í samtali við Vísi að honum líki hátíðin betur með færra fólki.

„Fyrir mig er það frábært af því að hátíðin er aðeins rólegri í ár en hún hefur oft verið, sem þýðir bara að það er minna af fólki hérna. Ég held að það sé bara passlegt núna þannig að það er mjög gott að vera hérna og gaman,“ segir Björn Hlynur.

„Stundum er aðeins of mikið af fólki hérna en nú eru eiginlega bara hérna þeir sem eru tengdir einhverjum myndum og miklu færri. Þannig að þetta er bara bærilegt og búið að vera mjög skemmtilegt hérna hjá okkur.“

Björn Hlynur er staddur úti ásamt hópi sem kemur að íslensku kvikmyndinni Dýrinu, eða Lamb eins og hún heitir á ensku. Myndin var frumsýnd í gær en hún fjallar um bóndahjón, sem búsett eru í afdölum, sem eru barnlaus en burður furðulambs breytir lífi þeirra. Til hins góða í fyrstu en síðan færist fjör í leikinn.

Björn segir að hópurinn sé talsvert stór, allt að tuttugu manns sem komi að myndinni séu staddir úti.

„Þetta er alveg risahópur, þetta eru örugglega 20 manns allt í allt hérna. Bæði þeir sem tengjast myndinni beint og aðstandendur leikstjórans og framleiðendanna,“ segir Björn Hlynur.

Hann segir að viðtökur við myndinni hafi verið gríðarlega góðar hjá hátíðargestum.

„Dýrið var frumsýnt í gær. Þær voru mjög góðar, við vorum hér í stóru bíói í aðalhúsinu og það var fullt hús og rosalega fínar viðtökur. Maður vissi eiginlega ekki við hverju var að búast af því að þeir geta verið ansi harðir í gagnrýninni hérna, bæði áhorfendur og gagnrýnendur sjálfir. En það var mjög góður fílingur í salnum eftir á og bara mjög fínar viðtökur,“ segir Björn Hlynur.


Tengdar fréttir

Dýrið hefur fengið nokkuð góðar viðtökur á Cannes

Dýrið, kvikmynd Valdimars Jóhannssonar, var frumsýnd á Un Certain Regard hluta kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í dag. Myndin hefur fengið nokkuð góða gagnrýni hingað til. Dýrið er sem stendur með einkunnina 6,7 á IMDB.

Dýrið fer á Cannes

Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson hefur verið valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni, sem er hluti af aðaldagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, sem fer fram dagana 6. - 17. júlí. Frá þessu er greint á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.