Erlent

Um­deild stytta í Char­lottes­vil­le fjar­lægð

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Íbúar og aðrir gestir í Charlottesville fögnuðu þegar styttan af Robert E. Lee var fjarlægð.
Íbúar og aðrir gestir í Charlottesville fögnuðu þegar styttan af Robert E. Lee var fjarlægð. Getty/John McDonnell

Stytta af hershöfðingjanum Robert E. Lee sem stóð í Frelsisgarðinum í Charlottesville í Bandaríkjunum hefur nú verið fjarlægð eftir nokkurra ára deilur. Styttunni hefur verið mótmælt harðlega af þeim sem berjast gegn kynþáttahatri.

Styttan er af bandaríska hershöfðingjanum Robert E. Lee og hesti hans Traveller og var reist árið 1924. Lee var yfirhershöfðingi herja Suðurríkjasambandsins og fór fyrir Norður-Virginíuhernum í Þrælastríðinu. Eftir andlát hans árið 1870 varð hann einskonar átrúnaðargoð þeirra sem aðhyllast hugmyndir um yfirburði hvíta mannsins.

Íbúar og gestir glöddust þegar þeir fylgdust með styttunni síga niður. Margir hafa talið hana vera smánarblett á sögu Bandaríkjanna, sérstaklega í kjölfar Black Lives Matter byltingarinnar og þeirrar vitundarvakningar sem orðið hefur í kjölfarið.

Fyrrverandi borgarstjóri Charlottsville, Michael Signer barðist fyrir því að allir minnisvarðar um Þrælastríðið yrðu fjarlægðir úr miðborginni, þar á meðal styttan af Lee. Til stóð að taka styttuna niður í ágúst árið 2017, en þá stóðu nasistar, fasistar og meðlimir Ku Klux Klan vörð um styttuna.

Þá kom til átaka á milli þeirra og mótmælenda styttunnar. Bíl var ekið inn í hóp mótmælendanna með þeim afleiðingum að ein kona lést. Svartur dúkur var dreginn yfir styttuna í kjölfar þessa atviks.

Styttan af Lee er ekki sú eina sem hefur nú verið fjarlægð. En styttur af landkönnuðunum Meriwether Lewis, William Clark og Sacagawea og hershöfðingjanum Thomas „Stonewall“ Jackson voru einnig teknar niður.


Tengdar fréttir

Tekist á um tákn sundraðrar fortíðar

Minnisvarði um Suðurríkin voru miðpunktur mótmæla hvítra þjóðernissinna í Charlottesville um helgina. Tákn Suðurríkjanna hafa lengi verið sundrungarafl í bandarísku samfélagi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×