Innlent

Forsetinn klappar Patta bróður lof í lófa

Jakob Bjarnar skrifar
Forseti Íslands er að vonum ánægður með Patta bróður sem þáði sérstaka viðurkenningu, silfurmerki Austurríkis, frá sendiherranum Maria Rotheiser-Scotti, og klappar honum lof í lófa.
Forseti Íslands er að vonum ánægður með Patta bróður sem þáði sérstaka viðurkenningu, silfurmerki Austurríkis, frá sendiherranum Maria Rotheiser-Scotti, og klappar honum lof í lófa. Forsetaembættið

Patrekur Jóhannesson var nýverið sæmdur silfurmerki Austurríkis á Bessastöðum.

Patrekur, hinn vörpulegi handknattleikskappi og þjálfari, sem ævinlega er kallaður Patti, var sæmdur þessari viðurkenningu af hálfu Maria Rotheiser-Scotti, sendiherra Austurríkis. Sá sem greinir frá þessu er sjálfur forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, á Facebooksíðu forsetaembættisins.

En svo skemmtilega vill til, og sem alkunna er, þá eru þeir Guðni og Patti bræður, báðir grjótharðir Stjörnumenn þó leiðir Patta hafi legið víðar, sem atvinnumaður í handbolta og seinna mikils metinn þjálfari.

„Ég átti í dag kveðjufund með sendiherra Austurríkis á Íslandi, Maria Rotheiser-Scotti (með aðsetur í Kaupmannahöfn). Að honum loknum sæmdi sendiherrann Patrek Jóhannesson, bróður minn, silfurmerki Austurríkis fyrir störf í þágu íþrótta þar í landi,“ segir Guðni.

Forsetinn tiltekur að Patti hafi verið þjálfari austurríska karlalandsliðsins í handknattleik árin 2011–2019 og náði liðið afar góðum árangri undir hans stjórn, komst tvisvar í úrslit heimsmeistaramótsins og eins oft í úrslit Evrópumótins.

„Á myndinni klappa ég honum lof í lófa fyrir þakkarræðu að orðuveitingunni lokinni og fylgjast þær Eliza og sendiherrann með,“ segir forseti Íslands og ljóst að þetta hefur verið ánægjuleg stund sem þeir bræður áttu á Bessastöðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.