Sport

Guðlaug Edda leið eftir aðgerðina og á mun erfiðara andlega en líkamlega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir hefur alltaf fundið leiðir þrátt fyrir mótlæti. Svona leysti hún það að geta ekki komist í sund í kórónuveirufaraldrinum.
Guðlaug Edda Hannesdóttir hefur alltaf fundið leiðir þrátt fyrir mótlæti. Svona leysti hún það að geta ekki komist í sund í kórónuveirufaraldrinum. Vísir/Vilhelm

Íslenska þríþrautarkona Guðlaug Edda Hannesdóttir gekk undir stóra mjaðmaraðgerð fyrir rúmri viku en hún er enn að safna fyrir aðgerðinni sem má að bjarga ferli hennar og halda um leið Ólympíudraumnum á lífi.

Í tilefni þess að vika er liðin frá aðgerðinni þá fór Guðlaug Edda aðeins yfir stöðuna á sér og þar kom í ljós að líkaminn er að taka vel við sér eftir aðgerðina en að hugurinn þarf meiri tíma.

„Það er vika liðin frá aðgerðinni. Dagarnir líða og lífið heldur áfram hjá mér sem og öllum öðrum. Það sem hefur komið mér mest á óvart er það að á sama tíma og líkaminn er að verða betri og betri með hverjum degi þá hefur hugurinn ekki jafnað sig á sama hraða,“ skrifaði Guðlaug Edda Hannesdóttir á Instagram síðuna sína.

„Ég hélt að um leið og ég kæmist í gegnum aðgerðina þá myndi hugurinn sjálfkrafa fara úr því að vera leiður í það að vera vongóður og áhugasamur um leið og ég myndi hefja endurhæfinguna mína,“ skrifaði Guðlaug Edda.

„Ekki misskilja mig. Ég er áhugasöm og ég er vongóð en ég hef líka verið svo leið á sama tíma,“ skrifaði Guðlaug Edda.

„Það er mikil sorg sem fylgir því að jafna sig á stórri aðgerð. Ég er að syrgja líkmann, markmiðin mín, þetta tímabil og auðkenni mitt sem íþróttamaður. Með því kemur mikil leiði,“ skrifaði Guðlaug Edda.

„Er ég mikilvæg í þessum heimi þegar ég get ekki stundað íþróttina mína og keppt fyrir þjóðina mína. Af hverju brást líkaminn minn mér svo stuttu áður en ég náði stærsta markmiði lífsins? Hvenær kem ég til baka og get ég ég náð að komast í mitt besta form aftur?,“ spurði Guðlaug Edda sjálfa sig.

„Hvernig styð ég við bakið á fólkinu í kringum mig á meðan þau eru að ná sínum markmiðum, keppa á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum, á sama tíma og ég syrgi það að geta ekki gert hið sama,“ skrifaði Guðlaug Edda. Kærasti hennar Anton Sveinn McKee er á leiðinni á Ólympíuleikana í Tókýó seinna í þessum mánuði.

Það má sjá alla færslu Guðlaugar Eddu hér fyrir ofan. Hún er enn að safna fyrir aðgerðinni sinni og þarf mikið í viðbót þar sem hún er ekki enn hálfnuð. Það er hægt að styðja hana hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×