Innlent

Hraða­hindrun fram­tíðarinnar á leið til landsins

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hlerinn fellur niður ef ekið er of hratt að hraðahindruninni.
Hlerinn fellur niður ef ekið er of hratt að hraðahindruninni. vegagerðin

Gagnvirk hraðahindrun verður sett niður í Ólafsvík á næstu vikum. Einungis bílar sem aka of hratt yfir slíkar hraðahindranir finna fyrir þeim.

Hleri er grafinn niður í götuna, sem fellur niður um nokkra sentímetra ef ökutæki er ekið of hratt miðað við leyfilegan hámarkshraða.

Sérstakur búnaður, yfirleitt radarmælir, mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina ef þau fara of hratt.

Helsti kosturinn við þetta fyrirkomulag er að ökutæki þurfa ekki að hægja á sér áður en ekið er yfir hraðahindrunina, svo lengi sem þau eru þegar á löglegum hraða, og geta því viðhaldið jöfnum umferðarhraða um götuna.

Hraðamælir verður settur upp við hlið hlerans.vegagerðin

Fyrstu gagnvirku hraðahindranirnar af þessari gerð voru settar upp í Svíþjóð árið 2010 og eru þær nú notaðar víðs vegar um heiminn

Hraðahindrunin verður sett upp um Ennisbraut í Ólafsvík en vegurinn liggur í gegn um bæinn, er nokkuð breiður og er vanalega ekið fremur hratt á honum.

Þetta er fyrsta gagnvirka hraðahindrunin sem er sett upp á landinu og er hér um að ræða tilraunaverkefni Vegagerðarinnar, sem leigir búnaðinn frá sænsku fyrirtæki, Edeva. Ef vel gengur stendur til að kaupa búnaðinn að ári og koma honum fyrir víðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.