Innlent

FÍFL er endur­­vakið fé­lag lög­­reglu­­deildar sem er ekki lengur til

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Fjölnir Sæmundsson er formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson er formaður Landssambands lögreglumanna.

Fé­lag ís­lenskra fíkni­efna­lög­reglu­manna (FÍFL) eru fé­laga­sam­tök starfs­stéttar sem er í raun ekki lengur til. Fíkni­efna­deild lög­reglunnar var lögð niður árið 2016 og heyrir fyrri starf­semi hennar nú undir svið mið­lægrar rann­sókna­deildar. Fjármagn sem FÍFL safnar hefur að mestu runnið til einkafyrirtækis með óljósu eignarhaldi.

Fjölnir Sæ­munds­son, for­maður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, harmar að aug­lýsing þessara gömlu fé­laga­sam­taka, sem birtist í Morgun­blaðinu í síðustu viku og varaði við neyslu kanna­bis­efna, sé tengd við Lands­sam­bandið eða lög­regluna sjálfa.

Í Lands­sam­bandinu eru hin ýmsu lög­reglu­fé­lög og er FÍFL talið upp sem eitt þeirra á heimasíðu sambandsins. Þegar Vísir ræddi við Fjölni um um­rædda aug­lýsingu, sem hefur vakið mikla gagn­rýni meðal annars fyrir að nota nafn Rauða krossins í leyfis­leysi, á­réttaði hann að Lands­sam­bandið hefði ekkert með hana að gera.

Félagið vakið úr dvala

„Það sem ég veit um þetta sam­band er að það var til hérna einu sinni þegar fíkni­efna­deild lög­reglunnar í Reykja­vík var starfandi og er greini­lega til enn þá. Þetta voru bara þeir sem voru í henni. Þeir virðast ein­hvern veginn enn vera í þessu fé­lagi þó að fíkni­efna­deildin sé ekki lengur til,“ segir hann.

Mið­læg rann­sóknar­deild lög­reglunnar fer nú með rann­sókn fíkni­efna­brota. Henni er skipt í tvennt; annars vegar kyn­ferðis­brota­deild og hins vegar deild sem sinnir skipu­lagðri brota­starf­semi.

„Á sínum tíma var þetta öflugt fé­lag,“ segir Fjölnir um FÍFL. „Það gaf út fræðslu­efni sem var notað í grunn- og fram­halds­skólum um fíkni­efni og á­hrif fíkni­efna og fór stundum inn í skólana með fræðslu.“

Og starf­semi fé­lagsins virðist nú hafa verið endur­vakin miðað við heil­síðu­aug­lýsinguna sem birtist í Morgun­blaðinu síðasta fimmtu­dag. Í aug­lýsingunni er varað við neyslu kanna­bis og efnið sagt geta valdið ó­tíma­bærum dauða.

Varnaðar­orð sam­bandsins taka að­eins lítinn hluta aug­lýsingarinnar því mestan part síðnanna taka lógó og nafna­listi hinna ýmsu fyrir­tækja, sam­taka og sveitar­fé­laga sem eru sögð styðja þessi skila­boð.

Fjármagnið fer mest allt til einkafyrirtækis

Í pósti sem FÍFL sendi út á fyrir­tækin kemur fram að lógó­merkin séu seld á 25 þúsund krónur en styrktar­lína á átta þúsund. Opnu­aug­lýsing í Morgun­blaðinu kostar að jafnaði um 300 þúsund krónur, en miðað við fjölda þeirra fyrir­tækja sem virðast hafa styrkt birtinguna má ljóst vera að FÍFL hefur safnað mun meira en 300 þúsund krónum.

Meðal þeirra sam­taka sem eru sögð styrkja aug­lýsinguna er Rauði krossinn en eins og greint var frá í gær kannast sam­tökin ekkert við að hafa sam­þykkt það. Í dag gagn­rýndi svo Sig­ríður Dögg Auðuns­dóttir, for­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands, FÍFL fyrir fram­setningu styrktar­beiðninnar og taldi fé­lagið hafa gabbað sig.

Sjá einnig: BÍ telur FÍFL hafa haft sig að fífli.

„Mér finnst nú leiðin­legt að það sé verið að tengja þetta við lands­sam­bandið eða lög­regluna. Eins og hún sagði, for­maður Blaða­manna­fé­lagsins, að hún hélt að hún væri að styrkja lands­sam­bandið eða lög­regluna,“ segir Fjölnir og áréttar þannig að sambandið sem slíkt hafi ekki komið nálægt auglýsingunni.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá eru þeir Ólafur Guðmundsson, Þórbjörn Sigurðsson og Guðbrandur Hansson skráðir sem stjórnarformenn FÍFL. Ekki náðist í þá við vinnslu fréttarinnar.

FÍFL hefur ráðið einka­rekna fyrir­tækið Ís­lenska lög­reglu­for­lagið til að safna styrktaraðilum í auglýsinguna fyrir sig og sagði Sig­ríður Dögg við Vísi í dag að hún hefði gengið úr skugga um að mikill meiri­hluti þeirra fjár­muna sem Blaðamannafélagið hefði sam­þykkt að styrkja for­varnar­starfið um renni til þessa fyrir­tækis.

Þegar Íslenska lögregluforlaginu er flett upp í fyrirtækjaskrá kemur fram að eigendur þess séu:

  • Óskar Bjartmarz, sem á reyndar 0 prósent hlut,
  • Guðmundur Stefán Sigmundsson, sem einnig á 0 prósent hlut og síðan:
  • Conrad A Fabritius de Tengnagel, sem á 100 prósent hlut.

Óljóst er hver þessi Conrad er en hann er samkvæmt fyrirtækjaskrá búsettur í Danmörku og er með danskt ríkisfang. 

Þegar nafnið er slegið inn í leitarvél Google með hinum ýmsu íslensku hjálparorðum á borð við „fjárfestir“, „fjárfestingafélag“ eða hreinlega „Íslenska lögregluforlagið“ skilar það ekki öðrum niðurstöðum en um danskan kaupmann sem bar nafnið og var uppi á 18. öld. Á danskri leitarsíðu má þó sjá að í Danmörku er nú einn núlifandi C A Fabritius Tengnagel og er hann lögfræðingur og á lögfræðistofu og hluti í nokkrum dönskum fyrirtækjum.

Hver tengsl hans við Ísland eru er óljóst eða hvers vegna hann á hundrað prósent hlut í Íslenska lögregluforlaginu. Rekstrartekjur þess voru rúmar 25 milljónir króna á síðasta ári.

Fréttin var uppfærð með upplýsingum um lögfræðinginn Tengnagel.


Tengdar fréttir

BÍ telur FÍFL hafa haft sig að fífli

Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands telur Félag íslenskra fíkniefnalögreglumanna (FÍFL) hafa blekkt blaðamenn til þátttöku í umdeildri fíkniefnaauglýsingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×