Erlent

Skelfilegt ástand í málefnum flóttafólks

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flóttafólk frá Tigray-héraði í Eþíópíu í búðum í Súdan.
Flóttafólk frá Tigray-héraði í Eþíópíu í búðum í Súdan. EPA-EFE/LENI KINZLI

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Sviðstjóri hjá Rauða krossinum segir stöðuna skelfilega.

Áttatíu og tvær milljónir eru nú á flótta og er þetta tvöfaldur fjöldi á við það sem var fyrir áratug.

Að því er kemur fram í skýrslunni fjölgaði flóttamönnum um rúmar ellefu milljónir í fyrra. Þrátt fyrir að dregið hafi úr umsóknum um hæli og flutningum á milli landa, einkum vegna kórónuveirufaraldursins, hélt flóttamönnum sum sé áfram að fjölga og fjölgunin var sömuleiðis meiri en árið 2019.

Atli Viðar Thorstensen, sviðstjóri á mannúðar- og hjálparsviði hjá Rauða krossinum á Íslandi segir stöðuna vægast sagt skelfilega.

„Það að næstum 1 af hverjum 100 jarðarbúum sé á flótta er óviðunandi og ætti ekki að líðast. Því miður eru tölurnar að hækka þannig fleiri og fleiri eru að leggjast á flótta. Ástæðurnar eru margvíslegar. Það eru átök, það er mikil fátækt, svo eru loftslagsbreytingar að valda fólksflótta líka. Svo mætti lengi áfram telja. Þannig staðan er vægast sagt mjög slæm,“ segir Atli. 

Auka þurfi alþjóðlega samvinnu og beita sér fyrir friðsamlegri lausn deilumála til að sporna við þróuninni. Sömuleiðis sé þörf á að styðja við fátækar og stríðshrjáðar þjóðir. Þá segir hann þörf á að minna á þá staðreynd að fólk vilji helst vera heima hjá sér og það sé algjört neyðarúrræði að fara á flótta.

„Níutíu prósent þeirra sem fara yfir landamæri, flýja heimaland sitt, eru að leita hælis í nágrannaríkjum sem oft eru líka fátæk og jafnvel óstöðug. Þannig þetta eru fyrst og fremst fátækari ríki sem eru að bera þessar þyngstu byrgðar varðandi aðstoð við flóttafólk og það er fólk frá þessum löndum sem er að flýja,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.