Sport

Leik Danmerkur og Finnlands hætt: Eriksen vaknaður og kominn á spítala

Árni Sæberg og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Samherjar Eriksens í danska liðinu slógu skjaldborg utan um hann meðan læknar meðhöndluðu hann.
Samherjar Eriksens í danska liðinu slógu skjaldborg utan um hann meðan læknar meðhöndluðu hann. Stuart Franklin/Pool via AP

Christian Eriksen, leikmaður Danmerkur og Inter Milan, hné niður í miðjum leik Danmerkur og Finnlands á EM 2020. Hann er kominn á sjúkrahús, vaknaður og líðan hans er sögð stöðug.

Atvikið varð rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og endurlífgunartilraunir hófust nær samstundis, auk þess sem leikurinn hefur verið flautaður af.

Samkvæmt AP-fréttaveitunni bað vallarþulur áhorfendur um að halda kyrru fyrir í sætum sínum uns hægt væri að gefa nánari upplýsingar.

Opinber Twitter-aðgangur Evrópumótsins hefur greint frá því að Eriksen hafi verið fluttur á sjúkrahús og líðan hans sé stöðug.

Þá er meiri upplýsinga að vænta frá mótshöldurum klukkan korter í sex að íslenskum tíma, eftir neyðarfund dómara leiksins með báðum liðum leiksins.

Danska knattspynusambandið hefur þá greint frá því að Eriksen sé vaknaður og á leið í nánari rannsóknir á spítala. 

Þá hefur Fabrizio Romano, einn fremsti knattspyrnufréttamaður heims, eftir umboðsmanni Eriksens að hann tali og andi sjálfur.

Hér að neðan má sjá hvar Eriksen var borinn af velli á meðan liðsfélagar hans fylktu liði um hann. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 18:05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×