Innlent

Ekki „skilgreindur pottur til vinnandi fólks á Íslandi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. VÍSIR/VILHELM

Forseti ASÍ telur að fara þurfi varlega í að bera saman kaupmátt nú og í fyrra þegar aðstæður eru allt aðrar. Samtökin muni áfram sækja kjarabætur í formi launahækkana fyrir félagsmenn þótt Samtök atvinnulífsins telji launahækkanir algjörlega óraunhæfar.

Hagstofan áætlar að ráðstöfunartekjur á mann á fyrsta ársfjórðungi hafi aukist um sjö prósent frá sama ársfjórðungi í fyrra, fóru úr um níundruð og níutíu þúsund krónum og upp í tæpa eina komma eina milljón. Þá er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hafi aukist um 2,6 prósent á sama tímabili. Hækkun launatekna rekur Hagstofan einkum til kjarasamningsbundinna launahækkana.

Ásdís Kristjánsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri SA sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að slíkar hækkanir væru ekki sjálfbærar í jafnmiklum samdrætti og nú er í hagkerfinu.

„Þannig að það er í raun óraunhæft með öllu að telja að við getum haldið áfram að hækka laun, ekki bara algjörlega á skjön við það sem er að mælast í verðmætasköpun innanlands heldur eru launhækkanir sem verið hafa hér að mæalst algjörlega á skjön við það sem gengur og gerist í okkar nágrannaríkjum.“

Drífa Snædal forseti ASÍ segir að mæld kaupmáttaraukning milli ára sýni að markmið kjarasamninga hafi náðst, í það minnsta að hluta.

„Auðvitað er það kaupmáttaraukning sem er markmið kjarasamninganna en það er hins vegar svolítið erfitt að bera saman tölurnar á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári og í fyrra því aðstæðurnar eru allt allt aðrar,“ segir Drífa.

ASÍ sýnist að hækkun hreinna launatekna með tilliti til verðbólgu og fólksfjölgunar á tímabilinu sé ekki mikil. Viðbrögð SA við framhaldinu séu fyrirsjáanleg.

„Við lítum ekki á það þannig að það sé skilgreindur pottur til vinnandi fólks á Íslandi en við eigum eftir að greina þetta og búa til samningsmarkmið og svo framvegis en auðvitað eru þau í grunninn að auka kaupmátt með einhverjum ráðum, hvort sem það er stytting vinnuvikunnar, lækkun húsnæðiskostnaðar eða hækkun launa,“ segir Drífa.


Tengdar fréttir

Sam­bæri­legar launa­hækkanir „ó­raun­hæfar með öllu“

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir ánægjulegt að markmið um kaupmáttaraukningu hafi náðst í kórónuveirufaraldrinum með síðustu kjarasamningum. Það sé hins vegar ekki raunhæft að búast við samskonar launahækkunum á næsta samningstímabili



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×