Innlent

Sjónar­spilið verður sí­fellt minna

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
við gosstöðvar
vísir/vilhelm

Sjónarspilið við gos­stöðvarnar verður sífellt minna að sögn Þor­valdar Þórðar­sonar, prófessors hjá Jarð­vísinda­stofnun. Hann segist hafa það á til­finningunni að gosið eigi eftir að halda á­fram í nokkur ár en hraun myndi þá ó­hjá­kvæmi­lega renna yfir Suður­stranda­rveg.

Það hefur farið fram hjá fáum að dregið hefur veru­lega úr kviku­stróka­virkni gossins síðustu daga. Það hefur þó ekki dregið úr hraun­rennsli frá gígnum heldur hafa myndast ein­angraðar rásir undir hrauninu sem veita kvikunni far­veg.

Þor­valdur Þórðar­son ræddi gosið í Reykja­vík síð­degis í dag. Spurður hvort sjónar­spilið við gos­stöðvarnar ætti eftir að verða minna sagði hann:

„Það dregur heldur úr því held ég.“

Hraunið rennur allt undir skorpunni

Hann út­skýrði hvernig rennandi hraunið hefur búið sér til af­markaða far­vegi undir hörðu yfir­borðinu, sem það á greiða leið um. Megnið af hrauninu losni þannig frá gígnum án þess að það sjáist þegar horft er á gos­stöðvarnar.

„Þetta sem við sjáum á yfir­borðinu er bara skorpa, efst er hún stökk og síðan er hún deig undir. Deigi hlutinn hann heldur yfir­borðinu alveg uppi og þar undir er meira og minna rennandi hraun sem að er í á­kveðnum innri rásum,“ sagði Þor­valdur.

Og þetta þýðir að hraunið dreifir meira úr sér: „Hita­tapið minnkar og því heitari og meira þunn­fljótandi verður kvikan þegar hún kemur út úr flutnings­kerfinu. Þá á hún auð­veldara með að dreifa sér og lengja hraunið sem vex þá bara smátt og smátt.“

Hér má sjá magnaðar myndir frá gosstöðvunum í gær sem Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, tók með dróna:

Hefur langt gos á tilfinningunni

Spurður hvort hraunið eigi þá eftir að renna yfir Suður­strandar­veg segir hann: „Það fer alveg eftir því hvað gosið stendur lengi. Ef að eins og mig grunar að þetta gos muni halda á­fram í ekki bara mánuði heldur ein­hver ár, þá er það auð­vitað ó­um­flýjan­legt að það fari niður að Suður­strandar­vegi.“

Það muni þó ekki gerast alveg á næstunni heldur mun taka tölu­verðan tíma fyrir hraunið að ná niður að veginum.

Finnst þér lík­legt að gosið verði í nokkur ár?

„Ég hef það svona á til­finningunni þó maður geti auð­vitað ekkert sagt um það því að náttúran hefur sína henti­semi á hlutunum. En það er ekkert sem segir okkur að gosið sé að stöðvast. Fram­leiðnin er enn þá sú sama,

Og eins og ég segi að flutnings­kerfið í hrauninu er að ein­angra sig betur og gígurinn er að ein­angra sig betur þannig að það er allt saman eitt­hvað sem stuðlar að því að gera þetta að þannig gosi að það geti búið til til­tölu­lega langt hraun og það ætti þá auð­velt með að fara alla leið niður í sjó.“


Tengdar fréttir

Magnaðar myndir af nýja hrauninu í Nátt­haga

Það var mikið sjónarspil á gosstöðvunum á Reykjanesi um helgina þegar hraun rann yfir vestari varnargarðana við gosstöðarnar og út í Nátthaga. Björgunarsveitarmaður í Grindavík segir fátt annað fréttnæmt hafa átt sér stað um helgina en hann hvetur forvitna gesti til að vera vel búnir áður en þeir leggja af stað upp að eldgosinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.