Sport

Mayweather mistókst að rota YouTube-stjörnuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Logan Paul átti undir högg að sækja gegn Floyd Mayweather en entist allar átta loturnar.
Logan Paul átti undir högg að sækja gegn Floyd Mayweather en entist allar átta loturnar. getty/Cliff Hawkins

Floyd Mayweather tókst ekki að rota YouTube-stjörnuna Logan Paul í boxbardaga þeirra í Miami í nótt.

Bardaginn var átta lotur en enginn formlegur sigurvegari var krýndur. Engir dómarar voru á staðnum.

Mayweather var talsvert sterkari aðilinn en tókst ekki að rota Paul. „Þetta var það svalasta sem ég hef upplifað,“ sagði Paul eftir bardagann.

Bardaginn var talsvert gagnrýndur og margir lýstu honum sem hálfgerðum skrípaleik. En áhuginn var til staðar og fjölmargir fyldust með honum í beinni útsendingu.

Þótt Mayweather hafi ekki tekist að rota Paul svekkir hann sig væntanlega ekki of mikið því talið er að hann fái fimmtíu milljónir Bandaríkjadala fyrir bardagann.

Mayweather sagði að Paul hefði komið sér á óvart og hann væri betri en hann hélt. „Bara að klára allar loturnar var sigur fyrir hann. Hann er frábær ungur bardagakappi, sterkur og harður af sér,“ sagði hinn 44 ára Mayweather.

Paul var hinn kátasti eftir bardagann og stóð meðal annars á höndum í hringnum. „Þetta er eitt af bestu augnablikum ævi minnar,“ sagði Paul.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×