Fótbolti

Níu Ólsarar sóttu fyrsta stigið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Víkingur Ólafsvík

Víkingur Ólafsvík varð í dag síðasta liðið í Lengjudeildinni til að koma stigi á töfluna þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Þór í Ólafsvík.

Leikurinn var viðburðaríkur en strax á tíundu mínútu kom Orri Sigurjónsson Þórsurum yfir. Kareem Isiaka jafnaði metin skömmu fyrir leikhlé eða á 41.mínútu en Jakob Snær Árnason sá til þess að Þór færi með forystu í leikhléið þegar hann skoraði á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Hagur gestanna vænkaðist til muna snemma í síðari hálfleik þegar Emmanuel Eli Keke, varnarmaður Víkings Ó. fékk að líta rauða spjaldið og vítaspyrna dæmd. Alvaro Montejo, sóknarmaður Þórs, náði hins vegar ekki að skora úr spyrnunni og staðan enn 1-2.

Kareem Isiaka fékk að líta beint rautt spjald á 71.mínútu og heimamenn því tveimur mönnum færri. Þrátt fyrir það tókst þeim að jafna metin því Marteinn Theodórsson skoraði á 80.mínútu og reyndist það síðasta mark leiksins.

Ólafsvíkingar á botni deildarinnar með eitt stig en Þórsarar eru með sjö stig eftir fimm umferðir og sitja í sjöunda sæti deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.