Erlent

Lögreglumenn óku um borgina og skutu saklausa borgara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í kringum forsetakosningarnar í febrúar.
Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í kringum forsetakosningarnar í febrúar. epa/Dai Kurokawa

Átta lögreglumenn óku um Kampala í Úganda í nóvember síðastliðnum og skutu á almenna borgara. Að minnsta kosti fjórir létust og fleiri særðust. Aftökurnar voru framkvæmdar undir yfirskini aðgerða gegn mótmælendum.

Mótmælin brutust út þegar stjórnarandstöðuleiðtoginn Robert Kyagulaniyi, betur þekktur undir listamannsnafninu Bobi Wine, var handtekinn en hann hafði boðið sig fram til forseta í kosningum sem fóru fram tveimur mánuðum seinna.

Fleiri en 50 létust í átökum mótmælenda og lögreglu og hundruðir særðust, í Kampala og víðar. Forsetinn Yoweri Museveni náði endurkjöri í fimmta sinn í kosningunum en stjórnarandstæðingar segja úrslit kosningana byggja á svikum.

Yfirvöld í Úganda lýstu því yfir að allir látnu hafi verið ofbeldisfullir mótmælendur og glæpamenn en hafa síðan dregið í land og játað að saklaust fólk hafi orðið fyrir byssukúlum.

Rannsókn BBC Africa Eye leiddi hins vegar í ljós að fjórar manneskjur hefðu látist af höndum lögreglu á Kampala-vegi, auk fimmtán ára drengs og tveggja kvenna sem voru skotin annars staðar í höfuðborginni.

Meðal rannsóknargagna var vitnisburður yfir 30 vitna og um 300 klukkustundir af upptökum úr farsímum.

Myndskeið og myndir sýna meðal annars hvernig bifreið með átta lögreglumenn innanborðs ekur framhjá hinni 28 ára Kamuyat Ngobi, fjögurra barna móður, þar sem hún er á leið með mat til föður síns í nærliggjandi byggingu. 

Sekúndum seinna sést hún falla til jarðar eftir að hafa verið skotin í höfuðið. Sama bifreið heldur áfram akstrinum eftir Kampala-vegi og fer meðal annars framhjá veitingastað þar sem tveir eru særðir.

Um það bil 60 metrum seinna er John Amera, 31 árs tveggja barna faðir, skotinn í brjóstið. Önnur fórnarlömb voru hinn 23 ára Abbas Kalule og John Kitobe, 72 ára.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.