Sport

Ís­lands­meistari þrjá­tíu árum eftir fyrsta Ís­lands­meistara­titilinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elsa Nielsen og Drífa Harðardóttir urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna og fagna hér með bikarinn.
Elsa Nielsen og Drífa Harðardóttir urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna og fagna hér með bikarinn. Badminton.is

Júlíana Karitas Jóhannsdóttir og Daníel Jóhannesson urðu bæði Íslandsmeistarar í badminton í fyrsta sinn um helgina en einn af hinum Íslandsmeisturum helgarinnar varð sinn fyrsta titil löngu áður en þau Júlíana Karitas og Daníel fæddust.

Hin átján ára gamla Júlíana Karitas varð Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna eftir 21-19 og 21-19 sigur á Sigríði Árnadóttur en báðar eru þær í TBR. Daníel vann úrslitalitaleikinn í einliðaleik karla á móti Róberti Inga Huldarssyni úr BH 21-12 og 21-16.

Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitillinn Júlíönu í meistaraflokki en Daníel hafði áður orðið Íslandsmeistari í tvíliðaleik árið 2018.

Elsa Nielsen og Drífa Harðardóttir úr TBR og ÍA urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna. Þær unnu þær Örnu Karen Jóhannsdóttur og Sigríði Árnadóttur TBR í úrslitaleiknum 21-13 og 27-25.

Elsa og Drífa eiga marga Íslandsmeistaratitla á ferilsskránni sinni en Elsa varð Íslandsmeistari í einliðaleik árin 1991-1995 og svo aftur árin 1998-2000. Það eru því þrjátíu ár frá hennar fyrsta titli. Þá varð Elsa Íslandsmeistari í tvíliðaleik árin 1994-2000 og í tvenndarleik árin 1994, 1996 og 2002.

Drífa varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik árin 2004, 2015-2016 og 2019. Þá varð hún einnig Íslandsmeistari í tvenndarleik árin 1998-1999, 2003-2004, 2006 og 2020.

Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson úr TBR tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð í tvíliðaleik karla en þeir unnu Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson í oddaleik í úrslitunum 21-16, 16-21 og 24-22. Þeir félagar hafa unnið titilinn fjórum sinnum á síðustu fimm árum.

Kristófer Darri og Drífa unnu bæði tvöfalt því þau urðu einnig Íslandsmeistarar í tvenndarleik eftir að hafa unnið Daníel Jóhannesson og Sigríði Árnadóttur úr TBR í jöfnum úrslitaleik 21-17 og 21-18. Sigríður tapaði því öllum þremur úrslitaleikjunum í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×