Innlent

„Hefði ekki tekist án samtakamáttar“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Smitin greindust flest á Suðárkróki. 
Smitin greindust flest á Suðárkróki.  Vísir/Egill

Hörðum sóttvarnaaðgerðum í Skagafirði verður aflétt á miðnætti eftir ákvörðun almannavarna þess efnis, sem telur sig hafa náð tökum á hópsmitinu. Fimm greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af fjórir í Skagafirði.

„Heildatalan sem hefur greinst í þessu hópsmiti er komin í 21. Það hefur enginn greinst utan sóttkvíar alla síðustu viku og það er engin smitrakning í gangi í tengslum við þessa fjóra sem greindust í gær. Það er okkar mat og rakningarteymisins að við séum búin að ná utan um smitið,” segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra.

Á meðan dregið var úr sóttvarnaaðgerðum annars staðar á landinu var ákvörðun tekin um að loka skólum, sundlaugum og íþróttamiðstöðvum á Skagafirði vegna smitanna. Stefán segir að hópsýkingin eigi rætur að rekja til höfuðborgarsvæðisins en ekki er talið að um brot á sóttkví hafi verið að ræða. Hann fagnar því hversu vel hefur tekist til við að ná utan um smitin.

„Almenningur hefur verið afskaplega hliðhollur okkur í þessu öllu saman og jákvæður. Það hefur verið mikil samstaða í sveitarfélögunum báðum og þetta hefur tekist vel, og fyrir það ber svo sannarlega að þakka. Þetta hefði ekki tekist án samtakamáttar og samstöðu sem var hér um þetta.”

Verkefninu sé þó ekki lokið.

„Við búumst alveg við því að það muni áfram einhver smit greinast en væntanlega verða þau í sóttkví, það eru okkar væntingar. Ef ekki þá þurfum við bara að bregðast við því,” segir Stefán.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×