Erlent

Fleiri vilja afnema einkaleyfi

Þórgnýr Einar Albertsson og Samúel Karl Ólason skrifa

Hreyfing er komin í viðræður um að afnema einkaleyfi á framleiðslu bóluefna við kórónuveirunni eftir að Bandaríkjamenn lýstu yfir stuðningi við tillöguna í gærkvöldi.

Indverjar og Suður-Afríkubúar hafa talað fyrir tillögunni innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) undanfarna sex mánuði. Hundrað af 164 aðildarríkjum hafa lýst yfir stuðningi við tillöguna.

Ríkisstjórn Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, lagðist gegn afnámi einkaleyfa af nokkurri hörku en nú hefur Joe Biden tekið við embættinu og Bandaríkjamenn skipt um skoðun.

Með afnámi einkaleyfa er vonast til þess að hægt sé að stórauka framleiðslu á bóluefnum gegn veirunni. Þannig geti fleiri fyrirtæki framleitt skammta og selt þá á lægra verði til fátækari ríkja. Aðrir leiðtogar stórvelda heimsins virðast taka vel í hugmyndina.

„Við erum tilbúin til að ræða þessa tillögu sem Bandaríkin hafa samþykkt um að afnema einkaleyfi á framleiðslu Covid-bóluefna,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Wang Wenbin, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, tók í sama streng á daglegum fréttamannafundi. „Kína leggur áherslu á að bóluefni standi öllum til boða. Stjórnvöld gera ráð fyrir því að öll ríki taki virkan þátt í uppbyggilegum umræðum innan WTO svo farsæl niðurstaða fáist í málið.“

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, fagnaði ákvörðun Bidens mjög í gær og sagði hana mikilvægan áfanga í baráttunni gegn Covid-19.

Lyfjaframleiðendur eru ekki jafnhrifnir af tillögunni. AP-fréttaveitan hafði eftir Richard Torbett, framkvæmdastjóra samtaka breskra lyfjaframleiðenda, að tillagan gæti haft öfug áhrif.

„Þótt þetta sé vel meint gæti tillagan leitt til hægari framleiðslu og minnkandi trausts fjárfesta. Við þurfum á fjárfestingum að halda til að þróa áfram bóluefni, meðal annars við nýjum afbrigðum veirunnar.“

Þjóðverjar andvígir

Þá hafa ráðamenn í Þýskalandi lýst sig andvíga þessum áætlunum og segja að einkaleyfin hafi ekki komið niður á framleiðslu bóluefna. Þá séu einkaleyfi og það að verja hugvit aðila lykillinn að nýsköpun og þurfi að vera það áfram.

Þýskaland er stærsta hagkerfi ESB og þar er mjög stór lyfjaframleiðslugeiri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×