Erlent

Um 30 prósent jarðarbúa neikvæð gagnvart bólusetningu árið 2020

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar Nepal reyndust meðal þeirra sem voru hvað viljugastir til að láta bólusetja sig.
Íbúar Nepal reyndust meðal þeirra sem voru hvað viljugastir til að láta bólusetja sig. epa/Narendra Shrestha

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar Gallup-könnunar segjast 68 prósent jarðarbúa munu þiggja bólusetningu vegna Covid-19 ef hún býðst ókeypis en 29 prósent segjast ekki munu láta bólusetja sig. Þrjú prósent eru óákveðin.

Þátttakendur í könnuninni voru 300 þúsund íbúar 117 ríkja heims en niðurstöðurnar jafngilda því að 1,3 milljarður manna hyggist ekki láta bólusetja sig. Hlutfall þeirra sem segjast myndu þiggja bólusetningu nær ekki hjarðónæmishlutfallinu 70 til 85 prósent.

Þess ber að geta að um er að ræða svör sem safnað var árið 2020 og viðhorf kunna að hafa breyst frá því að bólusetningarátak hófst víða um heim í kringum áramótin.

Ef horft er til einstakra ríkja benda nýrri kannanir raunar til þess að mörgum hafi snúist hugur. 

Til dæmis sagðist um helmingur Bandaríkjamanna í alheimskönnun Gallup ætla að þiggja bólusetningu en í könnun sem gerð var mánuðum seinna sögðust 74 prósent ætla að láta bólusetja sig.

Samkvæmt alheimskönnuninni voru þjóðir Suðaustur-Asíu mjög viljugar til að láta bólusetja sig. Var hlutfall jákvæðra 96 prósent í Mjanmar, 87 prósent í Nepal, 85 prósent í Taílandi og 84 prósent í Laos og Kambódíu.

Hins vegar sögðust aðeins 25 prósent íbúa Kasakstan hyggjast láta bólusetja sig, 30 prósent Ungverja, 33 prósent Búlgara og 37 prósent Rússa.

Könnunin leiddi einnig í ljós að rúmlega helmingur svarenda hafði neyðst til að hætta störfum af einhverjum ástæðum í kórónuveirufaraldrinum en hlutfallið var afar mismunandi eftir löndum. Þannig var það 79 prósent í Simbabve en 6 prósent í Þýskalandi.

CNN greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×