Erlent

15 prósent Breta nota gæludýranöfn sem aðgangsorð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gæludýranöfn þykja ekki góð aðgangsorð.
Gæludýranöfn þykja ekki góð aðgangsorð.

Milljónir Breta nota nöfn gæludýra sem aðgangsorð ef marka má nýja könnun National Cyber Security Centre (NCSC). Könnunin leiddi í ljós að um 15 prósent nota gæludýranöfn sem leyniorð, 14 prósent nafn fjölskyldumeðlims og 13 prósent einhverja markverða dagsetningu.

Þá vekur athygli að um 6 prósent segjast nota orðið „password“ sem aðgangsorð eða sem hluta af aðgangsorði. Sama hlutfall sagðist nota talnarunur á borð við „123456“ og nafnið á uppáhalds íþróttaliðinu.

5 prósent nota nafnið á uppáhalds sjónvarpsþættinum.

Um 40 prósent sögðust ekki hafa notað neitt af fyrrnefndu sem leyniorð.

NCSC hvetur fólk til að bæta ráð sitt, enda er auðvelt fyrir óprúttna aðila að giska á aðgangsorð af þessu tagi. Miðstöðin mælir með því að velja þrjú orð af handahófi og nota saman, til dæmis „RauttBuxurTré“.

Þá er einnig góð hugmynd að bæta táknum við.

Það var BBC sem greindi frá niðurstöðum könnunarinnar en tækniblaðamaður miðilsins bendir á að vandamálið sé ekki bara auðágiskanleg aðgangsorð heldur það að fólk á til að nota sama leyniorðið á mörgum mismunandi síðum, til dæmis á Facebook, Netflix og í heimabankanum.

Þetta gerir það að verkum að þegar tölvuþrjótar hafa náð að brjótast inn á einum stað, eru viðkomandi auðveld skotmörk á öðrum síðum og miðlum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×