Sport

Gæti haldið á­fram eftir Ólympíu­leikana í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Simone Biles vann fern gullverðlaun á sínum fyrstu Ólympíuleikum.
Simone Biles vann fern gullverðlaun á sínum fyrstu Ólympíuleikum. vísir/getty

Simone Biles, sigursælasta fimleikakona allra tíma, hefur nú gefið út að hún gæti haldið áfram þegar Ólympíuleikunum í Tókýó lýkur í sumar. Áður hafði Biles, sem er aðeins 24 ára gömul, gefið út að hún myndi líklega hætta eftir leikana í Japan.

Biles hefur alls unnið 24 verðlaun á heimsmeistaramótum í fimleikum og er ein frægasta íþróttakona heims í dag þrátt fyrir ungan aldur. Algengt er að fimleikakonur leggi kalkið snemma á hilluna en samkvæmt vef BBC gæti Biles nú hafa snúist hugur.

Frestun Ólympíuleikanna hefur haft mikil áhrif á Biles og annað íþróttafólk þar sem allur undirbúningur undanfarin ár hafði miðast við að taka þátt á leikunum sumarið 2020.

Biles er bjartsýn á að leikarnir fari fram í sumar þrátt fyrir faraldurinn sem enn geysar. Þessi magnaða íþróttakona hefur ekki enn verið bólusett en það styttist í það.

Þá kemur einnig fram á vef BBC að þjálfarateymi Biles sé frá Frakklandi og sé að reyna fá hana til að endurskoða það að hætta. Leikarnir 2024 fari nefnilega fram í París, Frakklandi.

„Í augnablikinu er ég aðeins að einbeita mér að Ólympíuleikunum í Tókýó. Ég veit ekki hvað ég geri eftir leikana í Tókýó en Cecile [Canqueteau-Landi] og Lareunt [Landi] eru frá París og hafa reynt að sannfæra mig um að keppa á leikunum í París. Eina markmiðið sem stendur er hins vegar að standa sig vel á Ólympíuleikunum í Tókýó,“ er haft eftir Biles á vef BBC.

Sama hver ákvörðunin verður er frammistöður Biles á leikunum í Ríó de Janeiro árið 2016 og eflaust í Tókýó í sumar munu lifa lengi í minningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×