Erlent

Marg­faldur Ólympíu­fari tekur við em­bættinu af Mori

Atli Ísleifsson skrifar
Seiko Hashimoto hefur keppt á alls sjö Ólympíuleikum.
Seiko Hashimoto hefur keppt á alls sjö Ólympíuleikum. Getty

Seiko Hashimoto, japanskur ráðherra málefna Ólympíuleikanna í Tókýó, hefur verið skipuð í embætti forseta undirbúningsnefndar leikanna í kjölfar afsagnar Yoshiro Mori vegna ummæla sinna um að konur tali of mikið.

Hashimoto á sjálf langan íþróttaferil að baki og hefur keppt á alls sjö Ólympíuleikunum. Hún keppti í skautahlaupi á fjórum Vetrarólympíuleikum á árunum 1984 til 1994 og svo í hjólakappreiðum á Sumarólympíuleikum á árunum 1988 til 1996. 

Hefur enginn annar Japani keppt á fleiri leikum, ef frá er talinn skíðastökkvarinn Noriaki Kasai sem hefur keppt á átta leikum.

Seiko Hashimoto var skírð Seiko í höfuðið á Ólympíueldinum, en hún fæddist árið 1964, sama ár og leikarnir fóru síðast fram í Tókýó.

Hinn 83 ára Yoshiro Mori, sem var forsætisráðherra Japans á árunum 2000 til 2001, sagði af sér embætti í síðustu viku eftir að hafa sagði á nefndarfundi að konur tali of mikið.

Ólympíuleikarnir í Tókýó áttu til að byrja með að fara fram síðasta sumar en var frestað vegna heimsfaraldursins. Þeir munu að óbreyttu hefjast 23. júlí næstkomandi og standa til 8. ágúst. 

Skoðanakannanir í Japan benda til að stór hluti Japana vilji aflýsa leikunum vegna veirufaraldursins.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.