Innlent

Gefa út leiðbeiningar fyrir öðruvísi öskudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin á öskudag fyrir nokkrum árum þar sem börn sungu fyrir nammi í verslun Nova. Ekki er mælt með því að börn fari á milli búða í ár og syngi fyrir nammi vegna kórónuveirufaraldursins.
Myndin er tekin á öskudag fyrir nokkrum árum þar sem börn sungu fyrir nammi í verslun Nova. Ekki er mælt með því að börn fari á milli búða í ár og syngi fyrir nammi vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/Hanna

Almannavarnir hafa gefið út leiðbeiningar fyrir öskudaginn sem er næstkomandi miðvikudag. Öskudagur verður að öllum líkindum töluvert ólíkur því sem verið hefur undanfarin ár þar sem ekki er mælt með því vegna kórónuveirufaraldursins að börn fari syngjandi á milli verslana og fái nammi að launum.

Þannig hafa til dæmis báðar stóru verslunarmiðstöðvarnar, Kringlan og Smáralind, gefið það út að þar verði engin dagskrá á öskudaginn í ár.

Vegna þessa hafa almannavarnir gefið út leiðbeiningar undir yfirskriftinni „Öðruvísi öskudagur“. Leiðbeiningarnar má finna á covid.is en þar er minnt á tveggja metra regluna, mikilvægi þess að þvo sér um hendurnar og forðast óþarfa snertingu.

Þá eru gefnar eftirfarandi hugmyndir að hlutum til að gera á öðruvísi öskudegi:

Gerum okkur dagamun í nærumhverfinu

Höldum upp á daginn á heimavelli, í skólanum, frístundaheimilinu eða félagsmiðstöðinni.

Mætum í búningum

Brjótum upp á hversdagsleikann með því að mæta öll í búningum. Ungir sem aldnir.

Endurvekjum gamlar hefðir

Nú er tækifæri að endurvekja gamlar öskudagshefðir eins og að búa til öskudagspoka og slá köttinn úr tunnunni. Með sóttvarnir í huga að sjálfsögðu.

Syngjum fyrir sælgæti

Ef hefð er fyrir því að ganga á milli húsa eða fyrirtækja í hverfinu væri upplagt að foreldrafélög tækju upp á sína arma að halda utan um hvar sé hægt að koma og syngja fyrir nammi. Athugið að gæta fyllstu sóttvarna og gefið aðeins sérinnpakkað sælgæti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.