Íslenski boltinn

Lettneskur kvartett í liði ÍBV í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
ÍBV var með þrjár lettneskar landsliðskonur síðasta sumar og heldur áfram að leita til Lettlands.
ÍBV var með þrjár lettneskar landsliðskonur síðasta sumar og heldur áfram að leita til Lettlands. vísir/hulda margrét

Lettneskar landsliðskonur munu setja sterkan svip á lið ÍBV á komandi leiktíð í knattspyrnu en félagið hefur nú samið við tvo leikmenn sem koma frá lettnesku meisturunum í Riga FS.

Fyrir hjá ÍBV eru landsliðskonurnar Olga Sevcova og Eliza Spruntule sem voru liðinu mikilvægar á síðustu leiktíð. Þær framlengdu báðar samninga sína í vetur.

Nýju leikmennirnir heita Viktorija Zaicikova og Lana Osinina. Karlina Miksone, sem skoraði 5 mörk í 15 deildarleikjum með ÍBV í fyrra, verður hins vegar ekki áfram í Eyjum.

Zaicikova er 20 ára og er líkt og Sevcova og Spruntule fastamaður í lettneska landsliðinu. Þær þrjár voru í lettneska landsliðshópnum sem mætti Íslandi á Laugardalsvelli í fyrrahaust en varð að sætta sig við 9-0 tap í undankeppni EM.

Osinina er aðeins 18 ára en leikur líkt og Zaicikova framarlega á vellinum og skoraði 10 mörk í 10 leikjum á síðasta tímabili. Zaicikova skoraði 24 mörk í 11 leikjum.

ÍBV hefur auk þess samið við marga af sínum yngstu leikmönnum. Þær Jóhanna Helga Sigurðardóttir, Helena Jónsdóttir, Þóra Björg Stefánsdóttir, Thelma Sól Óðinsdóttir, Sunna Einarsdóttir, Berta Sigursteinsdóttir og Inga Dan Ingadóttir skrifuðu allar undir samninga í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.