Innlent

Formaður borgarráðs dregur starfsleyfi í efa

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Málefni staðanna verða tekin fyrir á fundi í borgarráði. Sóley tómasdóttir óskar eftir að lögreglustjóri sitji fundinn.
Málefni staðanna verða tekin fyrir á fundi í borgarráði. Sóley tómasdóttir óskar eftir að lögreglustjóri sitji fundinn. Fréttablaðið/stefán
Starfsemi kampavínsklúbbanna, sem fjallað hefur verið um undanfarið, verður tekin til skoðunar hjá borgarráði þar sem þeir hafa ekki leyfi til að starfrækja aðra tegund afþreyingar inni á stöðunum en venjulegan barrekstur.

„Kampavínsklúbbarnir eru þegar komnir á dagskrá hjá ráðinu og við munum afla upplýsinga um stöðu þeirra. Af umsóknum staðanna um leyfi að dæma hafa þeir bara sótt um hefðbundin vínveitingaleyfi,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.

Spurður hvort sækja þurfi þá um sérstök leyfi fyrir annarri starfsemi en barrekstri segir Dagur að slík leyfi séu ekki gefin út lengur. „Við veitum auðvitað ekki slík leyfi,“ segir hann.

Eftir að lögum um nektardansstaði var breytt og slík starfsemi bönnuð tóku hinir svokölluðu kampavínsklúbbar við. Teknar voru út undanþágur fyrir annarri starfsemi líkt og nektardansi.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, hefur óskað sérstaklega eftir því að málefni staðanna verði tekin fyrir á fundi borgarráðs á fimmtudag og fer fram á að Stefán Eiríksson lögreglustjóri sitji þann fund.

„Eftir umfjöllun síðustu daga þá finnst mér að við sem borgaryfirvöld, sem höfum verið í fararbroddi í baráttunni gegn nektardansstöðunum allan tímann, fáum lögregluna á okkar fund og fáum að vita hvers hún hefur orðið áskynja,“ segir Sóley sem kveðst vilja getað treyst því að öll starfsemi skemmtistaða sé lögleg.

„Við viljum ekki hafa þjónustu hér í borginni sem vekur upp spurningar. Við viljum bara reka hérna skemmtistaði í miðborginni þar sem hægt er að treysta því að allt sé í lagi,“ segir Sóley.

Stígamót skora á valdhafa

Stígamót gleðjast yfir því að borgarfulltrúinn Björk Vilhelmsdóttir gagnrýni og krefjist úttektar á starfsemi tveggja kampavínsklúbba á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir í yfirlýsingu frá Stígamótum. Eigendur kampavínsklúbbanna hafa meðal annars kært Björk fyrir meiðyrði vegna ummæla hennar um starfsemi staðanna.

Stígamót segja að málsókn á hendur þeim sem dirfist að gagnrýna starfsemi staða sem þessara sé „alþekkt fyrirbæri á heimsvísu og árangursrík leið til þöggunar á því sem þar fer fram.

Samtökin skori á valdhafa að skoða vandlega starfsemina.

„Við skorum á alla valdhafa þessa lands, ráðherra, þingmenn, borgarstjórn og lögregluyfirvöld, að skoða vandlega hvað fram fer á hinum svokölluðu kampavínsklúbbum og tryggja að konur séu ekki undir nokkrum kringumstæðum seldar á afvikna staði fyrir háar fjárhæðir,“ segja Stígamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×