Innlent

Ekkert helíum til í heiminum - ómögulegt að fá partýblöðrur

Boði Logason skrifar
„Það er í raun og veru bara þessi skemmtanaiðnaður sem hefur fengið að kenna á því,“ segir Eggert.
„Það er í raun og veru bara þessi skemmtanaiðnaður sem hefur fengið að kenna á því,“ segir Eggert.
Eflaust tóku einhverjir eftir því að engar gasblöðrur voru á 17. júní og ómögulegt hefur verið að kaupa svokallaðar partýblöðrur síðustu mánuði. Ástæðan er einfaldlega sú að helíumskortur er í heiminum og útilokað er að fá gastegundina í skemmtanahald.

Eggert Eggertsson er lyfjafræðingur og gæðastjóri ÍSAGA, sem er eini innflytjandi helíums hér á landi.

„Það hefur verið helíumskortur í Evrópu og Vestur-Evrópu um langan tíma, nokkur ár. En við Íslendingum höfum sem betur fer haft birgðir og erum fyrst núna að verða var við vandamálið," segir hann.

Helíum er náttúruleg gastegund en þrátt fyrir að vera til í ríkum mæli er erfitt að nálgast það. Það er unnið úr jarðgasi en slíkar uppsprettur eru afar sjaldgæfar og finnast á einstökum svæðum til að mynda í Rússlandi. Það er annað léttasta frumefnið og einn sjöundi af þyngd andrúmslofts.

En helíum er ekki bara notað í gasblöðrur, í raun fer lítill hluti af gastegundinni hér á landi í slíkt.

„Það er mjög mikið notað í iðnaði, á rannsóknarstofum sem drifgas. Síðan er það notað á sjúkrastofnunum við myndanir," segir hann.

Von er á sendingu af helíum hingað til lands í byrjun ágúst. En er staðan hér á landi nú, að ekkert helíum sé til?

„Jú, við eigum háhreint helíum fyrir rannsóknarstofur og svo hefur ekki verið skortur til sjúkrastofnana. Það er í raun og veru bara þessi skemmtanaiðnaður sem hefur fengið að kenna á því,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×