Íslenski boltinn

Engin dómarakrísa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Magnús Þórisson í leikjunum tveimur.
Magnús Þórisson í leikjunum tveimur. Mynd/Stefán og Mynd/Arnþór
Það vakti athygli þegar í ljós kom að Magnús Þórisson myndi dæma viðureign Fram og Víkings Ólafsvíkur í 12. umferð Pepsi-deild karla í gærkvöldi. Rúmum sólarhring fyrr gegndi hann sama hlutverki í viðureign Vals og Fylkis.

„Það var kannski ekki krísa en þetta varð niðurstaðan að þetta væri best gert svona. Úr þeirri stöðu sem var komin," segir Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ. Birkir gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að raða dómurum niður á leiki og því vakti athygli að Magnús skildi dæma leik í efstu deild tvo daga í röð.

Birkir segir að veikindi Vilhjálms Alvars Þórarinssonar hafi orðið til þess að breytingar þurfti að gera á uppröðun dómara. Þá séu Valgeir Valgeirsson og Þóroddur Hjaltalín báðir á hliðarlínunni vegna meiðsla. Kristinn Jakobsson er erlendis auk þess sem Erlendur Eiríksson og Örvar Sær Gíslason dæma fyrir Fram og gátu því ekki dæmt mánudagsleikinn.

„Þetta er eins og með leikmennina. Menn koma úr meiðslum og aðrir meiðast. Svo fara einhverjir í erlend verkefni. Þannig er lífsins gangur í þessu," segir Birkir. Hann segist ekki svartsýnn á framhaldið.

„Nei, alls ekki. Við erum í mjög góðum málum," segir Birkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×